Álver í Helguvík: Landvernd kærir ákvörðun Skipulagsstofnunar
Landvernd hefur ákveðið að kæra ákvörðun Skipulagsstofnunar að nýta ekki lagaheimildir hennar um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík.
Við framkvæmdir sem þessar telur Landvernd eðlilegt að matsskyldar framkvæmdir sem háðar eru hver annarri séu metnar sameiginlega í lögformlegu umhverfismati.
Landvernd krefst þess að álit Skipulagsstofnunar verði ógilt og að fram fari lögformlegt umhverfismat á framkvæmdunum í heild sinni, þ.e. álveri, flæðigryfju og hafnarframkvæmdum, háspennulínum og fyrirhuguðum virkjunum s.s. í Krýsuvík og Trölladyngju og við Ölkelduháls.
Landvernd telur ráðlegt að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar þar til úrskurðað hefur verið í þessari kæru og vísar þar til stjórnsýslulaga. Enda hafi Skipulagsstofnun gert fyrirvara við álit sitt er varðar umhverfisáhrif tengdra framkvæmda.
Í kæru Landverndar kemur fram að í málsmeðferð Skipulagsstofnunar hafi ekki verið leitað álits hjá aðilum sem klárlega eiga hagsmuna að gæta. Ekki hafi verið leitað álits hjá Reykjanesfólkvangi, þrátt fyrir að honum sé ógnað með orkuflutningum og orkuvinnslu. Mörg sveitarfélög þurfi að leggja til land undir línumannvirki og orkuver, en til þeirra hafi ekki verið leitað.
Í umsögn Landverndar um frummatsskýrslu Norðuráls vegna álvers í Helguvík segir ennfremur að gert sé ráð fyrir að virkja fjögur svæði á Reykjanesskaga, þ.e. Seltún, Sandfell, Austurengjar og Trölladyngju. Þá verði um umtalsverðar framkvæmdir að ræða vegna orkuflutninga s.s. yfir Sveifluháls, Móhálsadal og um Strandaheiði. Þessar framkvæmdir hafi ekki farið í gegnum mat á umhverfisástæðum.
Mynd/elg: Frá Trölladyngju. Landvernd vill að fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir þar og annars staðar á Reykjanesskaga fari í heildrænt umhverfismat ásamt fyrirhuguðum framkvæmdum vegna álvers í Helguvík.