Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Álver í Helguvík til sölu
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 1. október 2020 kl. 07:00

Álver í Helguvík til sölu

Norðurál Helguvík ehf. leitar til Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar vegna samninga

Norðurál Helguvík ehf. hefur leitað eftir því að geta selt byggingu fyrirtækisins í Helguvík undir annars konar atvinnustarfsemi en álver. Til þess að það geti orðið þarf að gera breytingar á samningum sem á sínum tíma voru gerðir við bæði Reykjanesbæ og Sveitarfélagið Garð, sem nú er Suðurnesjabær. Meðal annars þarf að breyta lóðaleigusamningum en ríkið á lóðina sem byggingarnar standa á en Reykjaneshöfn er með leigusamning um lóðina sem síðan var framleigð til Norðuráls.

Gunnar Guðlaugsson, forstjóri Norðuráls, ritaði þeim Kjartani Má Kjartanssyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar, og Magnúsi Stefánssyni, bæjarstjóra Suðurnesjabæjar, bréf þann 1. september síðastliðinn þar sem segir að í ljósi þess að ekki hafi gengið að útvega þá raforku sem þarf fyrir fyrirhugað álver í Helguvík og ekki fyrirsjáanlegt að breyting verði þar á þá óski Norðurál Helguvík ehf. eftir því að Reykjanesbær og Suðurnesjabær vinni að því að rýmka möguleg not fyrir lóðina og húsnæðið sem búið er að reisa undir annars konar atvinnustarfsemi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Málið var tekið til kynningar í bæjarráði Suðurnesjabæjar í síðustu viku. Að sögn Magnúsar Stefánssonar, bæjarstjóra í Suðurnesjabæ, verður málið unnið áfram og ekki er komin niðurstaða í það.

Reykjanesbær og Sveitarfélagið Garður, nú Suðurnesjabær, gerðu með sér samninga á sínum tíma í tengslum við uppbyggingu Norðuráls í Helguvík en fyrirhugað álver var reist á bæjarfélagamörkum sveitarfélagana. Kerskálarnir risu í landi Garðs en hafnarmannvirki eru í landi Reykjanesbæjar. Framkvæmdir við álverið hófust með fyrstu skóflustungunni föstudaginn 6. júní 2008 og bygging kerskála hófst í árslok það ár. Gert var ráð fyrir að fyrsta áfanga álversins yrði lokið árið 2010, fyrir áratug síðan. Heildarkostnaður við fyrsta áfanga átti að vera 70–80 milljarðar króna á verðlagi þess tíma. Norðurál Helguvík ehf. átti svo samkvæmt samningum að byrja að greiða sveitarfélögunum gjöld tengd uppbyggingunni ári eftir að verksmiðjan hæfi starfsemi. Þessi gjöld hafa enn ekki skilað sér í sveitarsjóðina, enda starfsemi álversins ekki hafin og verður ekki í fyrirsjáanlegri framtíð.