Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Alveg  sama hvaðan gott kemur
Föstudagur 3. ágúst 2018 kl. 17:27

Alveg  sama hvaðan gott kemur

- segir Hallfríður Hólmgrímsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík. Hún studdi ráðningu bæjarstjóra en nýr meirihluti klofnaði í málinu

„Það er óhætt að segja að málið sé sérstakt og algjörlega í boði meirihlutans sem ekki gat komið sér saman um bæjarstjóra. Mér skilst að meirihlutinn ætli að vera sammála um að vera ósammála og á meðan staðan er þannig þá heldur meirihlutastarfið,“ segir Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík en hún studdi ráðningu Fannars Jónassonar til bæjarstjóra með þremur bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins en fjórða hjólið í meirihlutanum, Sigurður Óli, forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins greiddi Þorsteini Gunnarssyni atkvæði sitt.

Hallfríður segir að  ákvörðun hennar hafi verið vel ígrunduð: „Tekin af skynsemi, heilindum og umfram allt á faglegum grunni. Það að ég hafi í raun stigið inn og stutt annan helminginn af meirihlutanum skiptir í raun engu máli hér. Ef málefnið er gott og fleiri en færri hafa hag af því þá styðjum við Miðflokksmenn það, því skoðun okkar er skýr, það er alveg  sama hvaðan gott kemur,“ sagði hún.

Hallfríður segir að hún hafi fengið mjög mikil viðbrögð hjá bæjarbúum í Grindavík. Margir hafi hringt í hana eða sent henni skilaboð á Facebook og lýst yfir ánægju sinni að hún hafi stutt ráðningu Fannars. Hún segist hafa tekið mjög upplýsta ákvörðun eftir að hafa skoðað málið mjög mikið með samtölum við aðila sem tengjast málinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024