Alvarlegt umferðarslys við Sandgerði
Ökumaður bifreiðar var fluttur á Landspítala - háskólasjúkrahús í Fossvogi í kvöld eftir umferðarslys á Sandgerðisvegi nærri byggðinni í Sandgerði.
Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Keflavík er maðurinn talinn mikið slasaður.
Tilkynnt var um slysið klukkan hálf sjö og hafa lögreglumenn nýlokið störfum á vettvangi. Maðurinn var einn í bílnum. Hann mun hafa kastast út úr ökutækinu eftir að bílbelti slitnaði.
Samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta á vettvangi slyssins staðnæmdist bifreiðin rúmum 120 metrum frá þeim stað þar sem hún fór út af malbikinu og fór margar veltur.
Nánari upplýsingar um líðan hins slasaða liggja ekki fyrir að svo stöddu.
VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson