Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

Alvarlegt slys á útsýnispalli við Brimketil
Brimketill. Slysstaðurinn á innfelldu myndinni.
Fimmtudagur 23. maí 2019 kl. 00:00

Alvarlegt slys á útsýnispalli við Brimketil

Alvarlegt slys varð í dag á útsýnispalli við Brimketil á Reykjanesi. Hjón úr Grindavík duttu af 40 sentimetra háum stalli sem er á útsýnispallinum með þeim afleiðingum að hægri mjaðmarliður konunnar brotnaði. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem hennar bíður aðgerð. Stallurinn er ekkert merktur og björgunarsveitarmaður segir hann vera slysagildru.
 
Björn Birgisson úr Grindavík vekur athygli á þessu á fésbókarsíðu sinni í kvöld en hann varð fyrir óhappinu að detta þarna ásamt Ingibjörgu eiginkonu sinni. Þau voru þarna í ferð með Félagi eldri borgara í Grindavík.
 
„Ég var eitthvað að skima í kring um mig og skyndilega steig ég fram af efri pallinum - steyptist á hausinn og dró Ingibjörgu mína með mér í fallinu - með þeim skelfilegu afleiðingum að hægri mjaðmarliðurinn hennar brotnaði,“ skrifar Björn.
 
Hann segir í færslunni að hann hafi skoðað þennan pall vel áður en svæðið var yfirgefið.
 
Björn skrifar:
 
Að mínu mati er hönnun hans algjört klúður - manngerð slysagildra.
 
* Í fyrsta lagi er hann algjörlega að þarflausu í tveimur stöllum.
 
* Í öðru lagi er ekkert sem gefur til kynna að svo sé.
 
* Í þriðja lagi er hreinlega erfitt fyrir þá sem ekki hafa þeim mun betri sjón að sjá þessa stöllun vegna þess byggingarefnis sem notað er.
 
Ég tók nokkrar myndir af pallinum, þaðan sem gengið er inn á hann - læt eina fylgja hér með - og læt lesendum eftir að greina hvar um 40 sentimetra stöllunin er!
 
Í færslunni á fésbókinni segir Björn að í kvöld hafi hann heyrt af nokkrum sem hafi hlotið byltur þarna.
 
Otti Sigmarsson frá Björgunarsveitinni Þorbirni kom á vettvang slyssins í dag og sendi Birni línu í kvöld sem Björn birtir:
 
„Við skoðuðum aðstæður eftir að þið fóruð og tökum undir það að þetta sé slysagildra. Við munum í framhaldinu gera athugasemdir til bæjarins vegna þessa.“
 
Björn Birgisson skrifar að lokum:

„Að óbreyttu er þetta hættuleg slysagildra - og hreinlega tímaspursmál hvenær þeir sem ábyrgð bera á pallinum fá á sig háar skaðabótakröfur frá stórsködduðum ferðamönnum.“
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024