Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Alvarleg slys nánast horfin eftir tvöföldun
Föstudagur 13. ágúst 2010 kl. 13:18

Alvarleg slys nánast horfin eftir tvöföldun


Eftir að Reykjanesbrautin var tvöfölduð heyra alvarleg umferðarslys þar nánast sögunni til. Útkallsaðilar, þ.e. lögregla og slökkvilið, sjá þessa breytingu mjög skýra. Tveir „svartir blettir” hafa þó verið áhyggjuefni vegna tíðra slysa, þ.e. Stekkurinn svokallaði á Fitjum og Grænásgatnamótin. Nú er unnið að úrbótum á síðarnefndu gatnamótunum með gerð hringtorgs. Gunnar Schram, aðstoðaryfirlögregluþjónn, segist fagna því enda hafi þessar úrbætur verið löngu tímabærar. Hins vegar þurfi að huga að úrbótum við Stekk en þar var enn eitt umferðarslysið í gær.


„Við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar þá gjörbreyttist allt landslag hjá okkur hvað slysin varðar. Mjög alvarleg slys eins og við sáum áður reglulega á Reykjanesbrautinni verða nánast ekki þó þau geti vissulega orðið. En þetta hefur gjörbreyst og við sjáum þessa breytingu mjög skýra, “ segir Gunnar aðspurður um hvaða breytingar tvöföldunin hafði í för með sér. Hann segir það blasa við að það sem mesta þýðingu hafi til að draga úr tíðni slysa séu bætt umferðarmannvirki Hann fagnar því að verið sé að gera úrbætur á Grænásgatnamótunum. Það hafi verið löngu tímabært.
„Það þyrfti auðvitað að klára þessa tvöföldun alveg að flugstöðinni eða sem næst henni. Fyrr verður þetta ekki fullklárað. Þessi Grænásgatnamót hafa auðvitað verið skelfileg og ég tel að við höfum sloppið alveg ótrúlega vel með hliðsjón að því hve aðkoman að þessum slysum er oft ljót í hörðum, jafnvel þriggja bíla árekstrum. Þetta sama á við um Stekkinn, þar verða alveg gríðarlega harðir árekstrar.“

Þekkt er að sum sumur eru verri en önnur í umferðinni. Í því dæmi er hægt að nefna sumarið 2006 þar sem banaslys sem önnur óhöpp voru tíð og mikið um hraðakstur.
Aðspurður um umferðina í sumar segir Gunnar hana hafa komið vel út. „Við höfum ekki verið að glíma við slys. Auðvitað tínast inn þessi umferðarlagabrot en ekkert áberandi mikið. Athygli okkar á sumrin er á umferðinni. Við gerum áherslubreytingar þegar fer að vora, mótorhjólin fara á stjá og umferðin að aukast. Þá höfum við breytt um gír og beint mönnum meira í umferðareftirlitið,“ segir Gunnar Schram.

---

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFmynd/elg - Frá vettvangi umferðarslyss við Fitjar í gær.