Alvarleg líkamsárás á skólalóð
Fjórtán ára piltur og nemandi í grunnskóla Sandgerðis hlaut alvarlega áverka eftir að hann varð fyrir fólskulegri árás tveggja skólafélaga sinna á svipuðum aldri. Hann hlaut m.a. heilahristing, missti heyrn á öðru eyra og tennur losnuðu. Atvikið átti sér stað á skólalóðinni ný fyrir helgi. Annar árásarmannanna er kunnur af góðri frammistöðu við hnefaleikaiðkun.
Málið fer inn á borð barnaverndaryfirvalda og hefur það jafnframt verið kært til lögreglu. Árásarmönnunum hefur verið vísað úr skólanum, a.m.k. tímabundið en skólanefnd mun ákveða framhaldið.
Fanney D. Halldórsdóttir, skólastjóri grunnskólans, segir nemendum skólans og starfsfólki brugðið vegna árásarinnar. Vel megi greina þá afstöðu meðal nemenda að slíkt háttarlag sem hér um ræðir sé ekki samþykkjanlegt og langt í frá í anda þess sem skólinn og nemendur hans vilji standa fyrir.
Fanney segir málið fara í ákveðið ferli samkvæmt grunnskólalögum. Skólanefnd og félagsmálayfirvöld muni ákveða framhaldið og skólinn muni vinna með foreldum og nemendum.
Sem fyrr segir er annar árásarmannana þekktur af góðum árangri við hnefaleikaiðkun með Hnefaleikafélagi Reykjanesbæjar. Von er á yfirlýsingu vegna málsins frá félaginu.
---
VFmynd/elg - Frá Grunnskóla Sandgerðis.