Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Alvarleg áhrif á samstarf slökkviliða á ögurstundu?
Fimmtudagur 24. febrúar 2005 kl. 23:14

Alvarleg áhrif á samstarf slökkviliða á ögurstundu?

Eiga Suðurnesjamenn að reka þrjú slökkvilið? Væri betra að sameina krafta liðanna þriggja í eitt öflugt slökkvilið, sem væri betur í stakk búið að takast á við stóra og erfiða bruna? Síðustu daga hafa slökkviliðin í Grindavík og Sandgerði þurft að kljást við erfiða elda.
Annars vegar stórbruna í fiskimjölsverksmiðju í Grindavík og hins vegar erfiðan bruna í fiskiskipi í Sandgerðishöfn. Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja kom til aðstoðar í báðum þessum útköllum á grundvelli samkomulags á milli slökkviliðanna á Suðurnesjum. Sigmundur Eyþórsson fer fyrir Brunavörnum Suðurnesja. Hann svaraði spurningum Víkurfrétta um samstarf slökkviliðanna, starfsemi Brunavarna Suðurnesja og framtíðarhorfur í málefnum slökkviliða á Suðurnesjum.

Hvað eru Brunavarnir Suðurnesja í dag og hvernig er starfsemin?

Brunavarnir Suðurnesja eru í eigu þriggja sveitarfélaga, Garðs, Reykjanesbæjar og Voga,  sem skipa stjórn Brunavarna Suðurnesja, einum frá Gerðahreppi, einum frá Vatnsleysustrandarhreppi og þremur frá Reykjanesbæ sem í dag er 85% eignaraðili BS.  Sigurvin Guðfinnsson, fulltrúi Reykjanesbæjar, er formaður Stjórnar.  Stjórnin fer með helstu málefni BS og er slökkviliðsstjóri BS framkvæmdarstjóri stofnunarinnar.
Starfssvæðið, eða útkallssvæðið eins og það er kallað, nær frá Hvassahrauni, n.t.t. sunnan Virkishóla við álverið í Straumsvík um öll Suðurnes að Reykjanesi, utan Grindavíkur, um Seltjörn, Sandgerði og varnarsvæði á Suðurnesjum.  
Starfssvið BS er yfirgripsmikið, spannar m.a. hefðbundin störf slökkviliðs s.s. fræðslu- og forvarnarstörf, viðbrögð við brunum og mengunaróhöppum á landi, dælingar og fleira. 

Á undanförnum árum hefur samfélagsþörfin þróast þannig að hlutverk BS er miklu víðtækara en áður, þannig gerum við ráð fyrir að bregðast við hvers kyns vá er.  Má þar m.a. nefna að ná fastklemmdu fólki úr bílflökum, aukið samstarf við aðra viðbragðsaðila s.s. lögreglu og björgunarsveitir t.d. að ná fólki upp úr sjó og höfum við komið okkur upp búnaði m.a. flotbúningum og fleiru því tengdu. 
Að auki eru verktökusamningar um rekstur sjúkraflutninga sem fela í sér viðbrögð vegna bráðatilfella sem og hefðbundinna sjúkraflutninga.  Þá eru samningar við bæði Securitas og Öryggismiðstöð Íslands um viðbrögð öryggis- og viðvörunarkerfa og neyðarhnappa.

Hvað segir þú um útköllin 2004, hvað stendur uppúr?

Árið 2004 var heldur yfir meðallagi hjá okkur og sýnir það að fjöldi útkalla hefur aukist í samræmi við stækkun og aukin umsvif nútímans.  Á nýliðnu ári 2004 var fjöldi útkalla BS samtals 1423, þar af voru 1231 sjúkraflutningar sem skiptust þannig að 378 voru bráðatilfelli, 786 sjúkraflutningar voru án forgangs og 67 voru fyrirfram pantaðir sjúkraflutningar.  Samtals voru 50 staðfestir eldar á árinu og má helst nefna bruna í vélaverkstæð við Bolafót, en þar komu flugeldar slökkviliðsmönnum, sem og mörgum öðrum, óþægilega á óvart.  Þá fór slökkviliðið BS til aðstoðar í Höfuðborgina, dekkjabrunann í Hringrás.

Tveim mannslífum var sannarlega bjargað úr brunum á árinu, einum sem sofnað hafði út frá eldamennsku og öðrum þar sem slökkviliðið var kallað í íbúð í Njarðvík, þar kom í ljós að maður var inni sofandi og eldur var komin í sæng viðkomandi. 
Það sem stendur uppúr í lok ársins er að sjálfsögðu björgun mannslífa og aðhlynning fórnarlamba veikinda og slysa.  Þó er eitt sem sjaldan er minnst á og oft er vanmetið í þessum viðbragðs "geira"  og það er að þrátt fyrir oft mikið álag urðu engin slys á starfsmönnum BS á árinu.
Að meðaltali eru um 1450 útköll á ári, þar af eru um 1300 útköll vegna sjúkraflutninga.  Þjónustustigið, þ.e. mannhald og fleira, er ákveðið af eignaraðilum þess og miðast við að alltaf sé hægt að anna útköllum innan vissra tímamarka frá því að beiðni berst til okkar. 

Hvernig er starfsliðið skipað og hvernig er þjálfun þess háttað?

Mannauður slökkviliðsins er helsti styrkleiki þess.  Árið 1997 tók í gildi nýtt skipurit BS og er fjöldi stöðugilda í slökkviliðinu nú 30, hlutverkaskipti þeirra eru þannig að auk þriggja dagmanna sem sjá um daglega stjórnun, rekstur og forvarnir, eru 14 fastráðnir slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum og 13 slökkviliðsmenn sem skipaðir eru í varaliðið.  Sólarhrings vaktir eru og utan venjubundins vinnutíma eru 3 bakvaktarmenn, þar af einn stjórnandi.
Menntunarstig starfsmanna er gott, starfsmenn BS eru virkir kennarar bæði í Brunamálaskólanum og í Sjúkraflutningaskólanum.  Þjálfun og símenntun er stöðug og að öllu venju skipulögð til í eins árs í senn, þó er gerð allt að fimm ára þjálfunaráætlun í ákveðnum verkþáttum.  Í grófum dráttum þá eru árlega haldnar 12 æfingar að lágmarki með öllu liðinu.  Að auki eru æfingar á vöktunum og er einn vikudagur sérstaklega skilgreindur í þjálfun, þar sem tekið fyrir ákveðið þema mánaðarins. 

Hvernig er ástand bíla og búnaðar?

Ástand búnaðar hefur aldrei fyrr verið betra. Mikil endurnýjun hefur átt sér stað síðustu fimm ár og má segja að allur búnaður hefur verið endurskipulagður, ýmist endurbyggður eða endurnýjaður.  Þetta átak var gert í samræmi við þriggja ára áætlun BS, um endurskipulagningu og endurnýjun á tækjum búnaði slökkviliðsins.  Að auki hefur á tímabilinu verið bætt við tækjaflota BS bæði körfubíl og sérstökum björgunar-og slökkviliðsbíl.  Þá höfum við unnið að uppbygginu á stjórnstöðvarbíl sem er gagnlegur í öllum stærri tilfellum s.s. þegar almannavarnarástand skapast og fleiri stjórneiningar koma saman.  Samhliða þessu hefur allur smærri búnaður s.s. reykköfunarbúnaður, reykblásarar, búnaður til vatnsöflunar og margt fleira verið endurnýjað.  Þessi endurnýjun hefur m.a. breytt ímynd slökkviliðsins og skilað miklu í árangri slökkviliðsins, tæki og búnaður liðsins er öflugur og traustur og slökkviliðsmenn ganga mun ákveðnari og öruggari til verka á ögurstundu. 

Hvernig er ástand slökkvistöðvarinnar?


Húsnæði slökkviliðsstöðvarinnar er dapurt og mjög brýnt að bæta.  Stöðin var byggð árið 1967 og hönnuð  á þeim tíma þegar BS var eingöngu útkallslið.   Á þessu 40 ára tímabili hefur starfsemin breyst mikið og húsnæðið er því bæði óhentugt og alltof lítið fyrir starfsemina í dag.  Búnaður BS rúmast ekki lengur í húsnæðinu, aðstaða til þrifa á tækjum og búnað eftir útköll er fábrotin sem og lagaraðstaða.  Sömuleiðis er aðstaða og aðbúnaður mannhalds og forvarnardeildar fábrotin og nauðsynlegt að bæta innan tíðar.   Húsnæðið uppfyllir ekki lágmarksákvæði byggingarreglugerðar.

Hvað er til ráða?

Undanfarin tvö ár hefur Stjórn BS unnið að hagkvæmnisgreiningu m.a. húsrýmisþörf, endurstaðsetningu slökkviliðs með áherslu á betri tengingu við  Reykjanesbraut og styttri útkallstíma í jaðarbyggðir, sérvaldar leiðir í þéttbýli Reykjanesbæjar til að auka öryggi í forgangsakstri innanbæjar.  Á síðasta ári skýrði Stjórn BS niðurstöðu greiningar og lagði fram tillögu í húsnæðismálum BS og eru eignaraðilar að skoða málin. 

Brunavarnir Suðurnesja hafa tekið þátt í umfangsmiklu slökkvistarfi í Grindavík og Sandgerði á síðustu dögum. Hvernig er samstarfi slökkviliðanna á Suðurnesjum háttað í dag?

Í gildi er samstarfssamningur milli nágranna slökkviliða þ.e. Slökkvilið Sandgerðis, Slökkvilið Grindavíkur og Slökkvilið Keflavíkurflugvallar.  Samningurinn kveður á um samvinnu og gagnkvæma aðstoð þannig að það slökkvilið sem biður um aðstoðina er ekki að stofna til gjalda hjá sínu sveitarfélagi heldur að skuldbinda sig til að veita sambærilega aðstoð sé þess þörf. Ákvæði samningsins veita því viðkomandi slökkvilið heimild til að senda liðsauka til annarra aðila að samningnum þegar þörf krefur, þó með þeim takmörkunum að skerða ekki lágmarksviðbragð á viðkomandi útkallssvæði. 

Er samningurinn gagnlegur og hverjir eru helstu kostir og gallar að þínu mati?

Mín skoðun er sú að árangur slökkviliða byggir miklu frekar á öflugu forvarnarstarfi samhliða góðu viðbragði og því ætti áherslan að vera á hlutverk og samræmingu forvarnardeilda.  Samningurinn sem slíkur hefur verið gagnlegur í erfiðum tilfellum, þegar allt er komið í óefni, í löngum aðgerðum þegar þörf er á miklum mannskap og tækjum, en þá er líka allt komið í óefni og það verður að sjálfsögðu að leysa úr því!  Segja má að samningurinn hafi leitt til hagræðis, sérstaklega í smærri byggðarlögunum þ.e. í mannhaldi og kaupum á sértækum dýrum tækjabúnaði s.s. eins og körfubíl, slökkvibúnaði, sérbúnað til reykköfunar og fl.  Jafnframt hefur fyrirkomulag samningsins veikt stöðu slökkviliðanna sem sjálfstæðra eininga því þau sjálfkrafa verða háðari þeim stærri.

Samningurinn orkar því tvímælis og hefur fleiri vankanta, má þar helst nefna að slökkvilið sem er kallað til aðstoðar hefur fyrst og fremst ábyrgðir og skyldur til síns byggðarlags og fer þá á fullu afli í útkallið, en bara til "aðstoðar",  ekki eins og ef bruni væri í heimabyggð.  Með þessu fyrirkomulagi verður til falskt öryggi, öflugt viðbragð á fyrstu mínútum aðgerða slökkviliðs skiptir höfuð máli og er ótvíræður þáttur að árangri slökkvistarfs.  Síðustu daga höfum við reynslu tveggja atburða, þegar tilkynnt var um sprengingu og mikinn eld í þaki á Fiskimjöl og Lýsi í Grindavík og töluverðan eld á millidekki í m/b  Val GK 6, sem staðsettur var í Sandgerðishöfn.  Í fyrra tilfellinu fengum við beiðni frá Slökkviliði Grindavíkur um aðstoð, en þá voru 20 mínútur liðnar frá því að Slökkvilið Grindavíkur var kalla út.  Við sendum strax 7 slökkviliðsmenn með dælubíl, körfubíl, loftbanka og síðar þrjá menn þar af einn á sjúkrabíl.  Í síðara tilfellinu lét Neyðarlínan mig vita að Slökkviliðið í Sandgerði hefði verið kallað út vegna bruna á millidekki í bát, en ekki hafði verið óskað eftir aðstoð, Neyðarlínan bað okkur samt að vera í viðbragðsstöðu.  Reykköfun í stálbátum er ein sú erfiðasta reykköfun sem slökkviliðsmenn lenda í, oftast er uppbygging á hita mikil og hröð, umhverfið erfitt yfirferðar í hita og blindu reykjarkófi.  Því tók ég það upp hjá sjálfum mér að senda sjúkrabíl á staðinn og stuðla þannig að öryggi slökkviliðsmanna í Sandgerði sem voru á þeim tíma að byrja glímuna við gríðarlega erfitt tilfelli, nánast óviðráðanlegt ef ekki næst árangur á fyrstu mínútum aðgerða.  Að auki hringdi ég í Reynir Slökkviliðsstjóra og bauð alla þá aðstoð sem við gætum veitt slökkviliðinu.  Um 35 mínútum síðar kom óskin frá honum um að við sendum þeim loftbanka til að endurhlaða reykköfunartækin og tankbíl til vatnsöflunar.  Síðar í útkallinu sendum við alla froðu sem við áttum. 

Þegar að við skoðum þessi tvö útköll þá kemur manni til hugar hvort Samningurinn sé samfélaginu gagnlegur eða ekki og hvort það sé skynsamlegt að vera aðili að slíkum samning.  Maður spyr hefði mátt  kalla á aðstoð Brunavarna Suðurnesja strax, bæði tilfellin gáfu tilefni til þess, ég er þó ekki að fullyrða um betri árangur, en sannarlega hefði það verið miklu réttara og öflugra viðbragð á fyrstu mínútum brunans.  Þetta verður hinsvegar seint sannreynt.  Hver eru skilaboðin með þessu háttarlagi, eru slökkviliðsstjórar með þessari ákvörðun sinni að sanna sjálfstæði sitt??  Er umræðan um sameiningu sveitarfélaga farin að hafa alvarleg áhrif á samstarf slökkviliðana á ögurstundu.  Mér verður hugsað til góðrar ábendingar Árna Sigfússonar bæjarstjóra í grein sinni sem birtist í Víkurfréttum fyrir tveim vikum, þar sem hann vísar í viðbrögð smærri sveitarfélaga við þeim áformum, þar sem þau í varnarstöðu að framsetja kostnaðarsamanburð og þjónustustig.  

Það er mín skoðun að ef að Samningurinn um gagnkvæma aðstoð Slökkviliðanna á að vera virkur og gagnlegur, þá sérstaklega með tilliti til samfélagsins, þurfa slökkviliðin að vinna saman sem ein heild, samræma tæki og búnað, þjálfun og verklag á brunavettvangi, taka upp eitt stjórnskipulag og fleira.  Þetta geta þeir einir sem stjórna skútunni.

Hver er kostnaður BS af þessu samstarfi í dag?

Sveitarfélögin, hver fyrir sig, bera kostnaðinn af samstafi slökkviliðanna.  Við hjá BS höfum ekki haldið því aðgreindu í bókhaldi.  Afstaða okkar til eflingar samstarfsins hefur alltaf verið jákvæð og okkur finnst  það sjálfsögð  stefna BS að styrkja að fremsta mætti slökkviliðin sem eina heild bæði hvað varðar tæki, búnað og mannhald.   Ég vil ekki nefna eitthvað eitt umfram annað í því  efni.
 
Kemur til greina að sameina slökkviliðin á Suðurnesjum í eitt lið?


Já, við höfum dæmi um hagkvæma útkomu af sameiningu Slökkviliða á höfuðborgarsvæðinu, þar hafa sjö sveitarfélög sameinast um rekstur Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.  Ég tel að það sé mun meiri styrkur og slagkraftur í slökkviliði sem starfar sem ein heild og rekstrarlega er það ótvírætt mun hagkvæmara fyrirkomulag.  Sveitastjórnir hafa látið vinna skýrslu um kosti og galla aukins samstarf slökkviliðanna á Suðurnesjum.  Skýrsla Karls Taylors  fjallar um starfsemi og rekstur slökkviliðanna og þrjá möguleika til að ná fram betra fyrirkomulagi.  Í skýrslunni fjallar ein af tillögum Karls um Sameinað Slökkvilið Suðurnesja. Þessa skýrslu, ásamt úttekt Verkfræðistofunnar Hnit á Slökkviliði BS  má nálgast á heimasíðu okkar bs.is fundargerðir.


Nú hefur verið bent á það að rekstur BS sé dýrari á haus en t.d. rekstur liðsins í Sandgerði, er þetta sanngjarn samanburður?

Nei þetta er mjög óréttmætur og órökstuddur samanburður, kostnaður pr. íbúa er ekki réttur í skýrslu þessa starfshóps Sandgerðisbæjar.  Framlag sveitarfélaga vegna reksturs og fjárfestinga BS fyrir árið 2003 var 73.399 þús. eða rúmar 5.600 krónur pr. íbúa og er þetta um 1.000 krónum lægri tala en fram kemur í skýrslu Sandgerðinga.  Kostnaður pr. íbúa vegna reksturs Slökkviliðs Sandgerðis er tæplega 3.900 krónur pr. íbúa, eðlilega er rekstrarkostnaður Slökkviliðsins þar minni.  En ég spyr, er slökkvilið sama og "Slökkvilið"?  Hvernig er það marktækt að bera Slökkvilið BS, sem fer að jafnaði í um 1450 útköll á ári, skipað bæði atvinnu- og hlutastarfandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum, saman við Slökkviliðið í Sandgerði sem er skipað útkallsliði og hefur mun minni verkskyldur.  Ég vil segja það við þennan starfshóp sem framsetur þessi gögn í vörn um eigin hagsmuni að við hjá BS höfum mikinn metnað til að veita íbúum okkar svæðis gott þjónustustig, öryggi og góða ímynd slökkviliðs BS. 


Hvernig er framtíðarsýn þín á málefni BS háttað?

Ég er spenntur fyrir því sem framtíðin ber í skauti.  Brunavarnir Suðurnesja er öflug starfseining sem hefur bæði öflugt mannhald, búnað og stuðning sveitarstjórna til að takast á við spennandi tækifæri og krefjandi verkefni sem eru framundan. 
Ljóst er að á komandi árum verða breytingar á útkallsvæði BS, nú þegar er mikil uppbygging á svæðinu og við munum fylgja þeirri þróun og nálgast þau tækifæri í tíma.  Þá tel ég að verkskyldur og umsvif slökkviliðs BS eigi eftir að aukast verulega vegna þeirra þróunar sem á sér stað og nú er fyrirséð.  Umhverfismál og forvarnargildin eiga eftir að fá stærri hlut í starfsemi BS á komandi árum.  Þá liggur fyrir tillaga Stjórnar BS um framtíðalausn í húsnæðismálum en það mál er í ákveðnum farvegi. 

BS hefur unnið brautryðjandi starf í uppbyggingu á þjálfunarsvæði, smíði sérstakra gámaeininga til verklegrar þjálfunar.   Svæðið sem umræðir er svæði gömlu Sorpeyðingarstöðvar við Hafnarveg.  Nýlega var haldinn fundur um þetta mál, á þann fund komu fulltrúar átta slökkviliða af suður og suðvesturlandinu og lofar þetta mál góðu.  Hugmyndin er að stórum hluta fengin frá vinaslökkviliði okkar í Lindesberg í Svíþjóð. 
Þá höfum við, í samstarfi við Slökkvilið Akureyrar og Slökkvilið Höfuðborgarsvæðisins nýlega gert verktökusamning við Brunamálastofnun ríkisins um kennslu og umsjón á 540 kennslustunda námskeiði fyrir atvinnuslökkviliðsmenn. Þessi samningur er tímamótasamningur og kallar á ennþá meiri þátttöku BS í þessum málaflokki.  Mikið hagræði og fagmennska fæst með því að efla þátttöku slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna BS.
Starfsáætlun BS fyrir árið 2005 er spennandi, þar má helst nefna endursmíði og lagfæringar á körfubíl og tankbíl BS, áframhaldandi uppbyggingu í búnaði til viðbragða vegna mengunaróhappa á landi. 

Þjálfun liðsins verður með hefðbundnum hætti. Að auki verða mörg sérstök námskeið á árinu og má þar nefna að í mars er fyrirhugað að ráða í sex lausar stöður.  Í kjölfarið verður 80 kennslustunda fornám haldið af BS fyrir nýráðna.  Þetta er í annað sinn sem BS heldur slíkt fornám sem er bæði bókleg og verkleg kennsla í slökkviliðsfræðum.  Fimm slökkviliðsmenn varaliðs munu sækja 120 kennslustunda grunnnámskeið í sjúkraflutningum nú í febrúar og þrír fara á sama námskeið í haust.  Þá er fyrirhuguð viku ferð á þjálfunarsvæðið í Lindesberg um miðjan maí.   Við höfum skipulagt þjálfun í fimm daga sem eingöngu eru verklegar æfingar, krefjandi æfingar, þar sem við kveikjum elda í  gámasamstæðum og æfum  reykköfun, árás á elda, reyklosun, froðunotkun, gaseldar, öryggi á þökum og fleira.  Þetta er í annað sinn sem BS fer með 10 slökkviliðsmenn bæði úr fastaliðinu og útkallsliðinu til slíkra æfinga í Lindesberg.  Með þessu átaki er verið að efla samræmingu verklags fastráðna og hlutastarfandi saman og styrkja þannig heildargetu slökkviliðsins,  virkja enn betur þátttöku og hlutverk varaliðsmanna.

Margt annað er á dagskrá s.s. árlegar rýmingar æfingar í skólun og leiksskólum, en samtals voru 13 slíkar æfingar árið 2003, segir Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja í viðtali sem birtist við hann í Víkurfréttum í dag, 24. febrúar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024