Almannavarnafulltrúi ráðinn
Almannavarnafulltrúi mun taka til starfa innan embættis Lögreglunnar á Suðurnesjum. Þetta kom fram í máli Guðrúnar Hafsteinsdóttur, dómsmálaráðherra á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum síðasta laugardag.
Ráðherra sagði að fram hafi komið áhyggjur af því að á svæðinu sé ekki starfandi almannavarnafulltrúi hjá Lögreglunni á Suðurnesjum, sér í lagi í ljósi tíðra almannavarnaraðstæðna sem komið hafa upp síðustu ár.
„Ég hef meðtekið þær áhyggjur og deili þeim með ykkur. Ég fæ því að deila þeim ánægjulegu fregnum með ykkur að í samstarfi við lögreglustjórann á Suðurnesjum hefur málið verið leyst og til starfa mun taka almannavarnafulltrúi hjá embættinu. Er það nú þegar í ferli,“ sagði Guðrún á fundinum.