Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Alma Vestmann hlýtur hvatningarverðlaun
Miðvikudagur 18. maí 2005 kl. 14:22

Alma Vestmann hlýtur hvatningarverðlaun

Alma Vestmann kennari og námsráðgjafi í Myllubakkaskóla hlaut hvatningarverðlaun Heimilis og skóla sem veitti sín árlegu foreldraverðlaun við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í gær.
Fleiri voru tilnefndir frá Reykjanesbæ og má þar nefna þróunarverkefnið Lestrarmenning í Reykjanesbæ og SOS námskeið Gylfa Jóns Gylfasonar yfirsálfræðings á fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.
Alma hlaut hvatningarverðlaunin fyrir verkefnin Merkispjöld, Sólblóm, páskakveðja og Kennaraeplið. Um er að ræða skemmtilegar nýjungar í skólastarfi jafnt í kennslu sem og til að hvetja krakkana í starfi sínu.

Merkispjöld:
Merkispjöldin eru ein af fjáröflunarleiðum 10. bekkinga fyrir ferðasjóð.  Spjöldin eru hugsuð sem jólamerkispjöld og voru upphaflega gerð til þess að fjármagna vorferð sem Alma fór með nemendur sína í til Færeyja, en hafa nú hlotið fastan sess í starfi 10. bekkjar.  Umsjónarkennar hafa sérstakan útbúnað , pappír, skæri og „krullujárn“ o.fl. sem lánað er á milli stofa/kennara á meðan á verkinu stendur.  Nokkur vinna felst í að brjóta, klippa, skera, krulla, líma, skreyta og að lokum pakka spjöldunum inn, en þau eru bundin saman í litla pakka 10 mismunandi kort í hverjum pakka. Að lokum sjá nemendur um sölu á merkispjöldunum og hafa fengið mikið hrós og mikla eftirspurn í bænum, eftir merkispjöldunum. Nokkur þróunarvinna hefur farið fram varðandi spjöldin sem leiðir af sér fleiri tegundir, t.d. er boðið uppá „stærri“, „minni“ og „ilmandi“ sem seld eru sérstaklega. Einnig hefur spjaldagerðin tengst heimilisfræðikennslu með þeim hætti að nemendur hafa bakað lítil jólatré, piparkökukarla með kanil og eplamauki sem þau selja með merkispjöldunum og vakið hafa mikla hrifningu. Fastir áskrifendur eru að spjöldunum. Hugmyndin og útfærslan er Ölmu en verkið er undir stjórn umsjónarkennara.

Sólblóm, páskakveðja:
Verkefnið felst í því að þeir kennarar sem sjá um kennslu í námsgreinum til samræmdra prófa, búa til kort þar sem sett eru fram hvatningarorð til nemenda áður en þeir fara í páskafrí. Með þessu telja kennararnir að þeir sýni nemendum að þeir standi með þeim þegar á reynir. Hvatningarorðin eru oft í formi ljóða eða heilræða, mjög vönduð að allri gerð, eru stíluð á hvern nemanda, en hafa þó verið valin af handahófi.  Með Sólblómakortinu fá börnin páskaegg og klapp á bakið áður en þau leggjast í lestur fyrir prófin.

Kennaraeplið:
Verkefnið er sérstök viðurkenning sem veitt er nemendum, óháð námsárangri og afhent á skólaslitum á vorin. Veit hafa verið verðlaun fyrir, t.d. vinsemd í félagahópnum, ljúfmannlega framkomu eða annað sem vekur athygli í lífi nemenda. Einn nemandi fékk t.d. Kennaraeplið fyrir frumkvæði og hugmynd að því að smíða „kortakrækju“ fyrir kennara sinn, til að draga niður landakort og sýningartjald í kennslustofunni. Nemandi af erlendu bergi brotinn fékk einnig verðlaun fyrir jákvæða framkomu og fyrir að vera hvers manns hugljúfi. Mikil eftirvænting ríkir á ári hverju varðandi þessi verðlaun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024