Allur akstur bannaður á Reykjanesbraut
Reykjanesbraut er lokuð vegna ófærðar og skafrennings. Sex snjóruðningstæki eru nú að vinna í að ryðja brautina en fjölmargir ökumenn lentu í því í kvöld að festa ökutæki sín á Reykjanesbraut og víðar á Suðurnesjum. Margir festust í hringtorgum, m.a. við Grænás og í Rósaselstorgi.
Íbúar í Innri Njarðvík urðu margir að skilja bíla sína eftir á Fitjum og var ekið til síns heima af björgunarsveitarbílum þar sem færð í Innri Njarðvík var afleit.
Á korti á vef Vegagerðarinnar má sjá að þæfingsfærð og snjór er á öllum leiðum á Suðurnesjum og glögglega má sjá að Reykjanesbraut frá Straumsvík og að Leifsstöð er lokuð og þar er allur akstur bannaður.
Rauði krossinn hefur athvarf á tveimur stöðum í Reykjanesbæ fyrir þá sem sóttir voru í fasta bíla, og aðra sem vantar húsaskjól, annað er í íþróttahúsi Akurskóla í Innri-Njarðvík, hitt í Holtaskóla í Keflavík.
Mikið annríki hefur verið hjá björgunarsveitum að liðsinna fólki í vanda.