Alltaf með kynjagleraugun uppi
- Isavia setur jafnréttismarkmið á hverju ári - Eitt af markmiðunum í ár er að fjölga konum meðal stjórnenda
Isavia hlaut gullmerki PWC síðustu tvö ár fyrir góða niðurstöðu úr jafnlaunaúttekt. Hjá Isavia eru sett jafnréttismarkmið sem eru endurskoðuð á tveggja ára fresti og í lok árs er metið hvort þau hafi náðst. Frumvarp félagsmálaráðherra um jafnlaunavottun var lagt fram á Alþingi í vikunni en það kveður á um að öll fyrirtæki og stofnanir öðlist slíka vottun á næstu árum. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrirtæki og stofnanir með 250 starfsmenn eða fleiri verði tilbúin undir vottunina í árslok 2018 en þau minnstu um áramótin 2020-2021. Tilgangurinn með frumvarpinu er að jafna laun kynjanna en rannsóknir hafa sýnt að víða fá konur greidd lægri laun en karlar fyrir sambærileg störf.
Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með þeim Sóleyju Rögnu Ragnarsdóttur, mannauðsstjóra Isavia í Keflavík, Róbertu Báru Maloney, deildarstjóra kjaramála og Hauki Þór Arnarsyni, mannauðsráðgjafa og jafnréttisfulltrúa fyrirtækisins. Eitt af markmiðum Isavia í jafnréttismálum í ár er að efla og fjölga konum sem eru stjórnendur hjá fyrirtækinu en þær eru færri en karlarnir. Sömuleiðis verður markmiðið í ár að efla jafnréttisvitund stjórnenda og starfsmanna. „Þegar stjórnendastöður eru auglýstar lausar hér innanhúss þá finnst okkur ekki nógu margar konur sækja um. Þetta er verkefni sem við hlökkum til að takast á við,“ segir Sóley.
Sum störf sækja konur ekki um
Þegar Isavia var stofnað árið 2010 voru tvö fyrirtæki sameinuð í eitt. Hluti af því ferli var samræming jafnréttisáætlana en þær eru gerðar í samræmi við lög þess efnis og segir Sóley gullmerki PWC sýna að sú vinna hafi skilað árangri.
Konur eru 35 prósent starfsmanna Isavia og segir Róberta ástæðuna þá að mörg starfanna hjá fyrirtækinu séu svokölluð „hefðbundin karlastörf“ þar sem krafist sé meiraprófs og iðnmenntun sé kostur. „Við gerum okkar besta til að fá konur í þau störf en þær sækja ekki einu sinni um,“ segir Róberta og nefnir sem dæmi að í 80 manna deild sem kallast flugvallaþjónusta sé aðeins ein kona. „Við auglýstum nýlega eftir fólki í þá deild og engin kona sótti um.“ Á skrifstofum Isavia er hlutfall kynjanna jafnara. Með árunum hefur kynjahlutfall meðal flugumferðarstjóra jafnast en ekki er svo langt síðan karlar voru í miklum meirihluta í þeirri stétt. Síðastliðið haust voru 40% af þeim sem hófu nám í flugumferðarstjórn konur, en nám í flugumferðarstjórn er nú á vegum Isavia.
Vel mögulegt að jafna laun
Verði frumvarp um jafnlaunavottun samþykkt er ljóst að Isavia verður vel í stakk búið að mæta þeim kröfum. Sóley, Róberta og Haukur eru sammála um að það sé ekki svo ýkja mikil vinna að passa upp á að konum séu ekki mismunað þegar kemur að launum. „Margir starfsmanna okkar fá greitt eftir launatöflum kjarasamninga. Þá hækkar fólk í launum eftir ákveðnum reglum,“ segir Róberta. Sóley bætir við að sem dæmi sé vel passað upp á að sérfræðingar séu með sömu laun miðað við menntun, reynslu, ábyrgð í starfi og umfang verkefna. Haukur bendir á að með ákveðnum verkferlum og með kynjagleraugun uppi sé vel mögulegt að ná jöfnum launum kynjanna. Öll eru þau sammála um að ávinningurinn af jöfnum launum sé óumdeilanlegur. „Það er auðvitað ávinningur að vera viss um að vera ekki með kynjamismun og að geta sýnt fram á það. Fyrirtækið verður líka eftirsóttari vinnustaður fyrir vikið,“ segir Róberta.