Alltaf hægt að komast út úr samningum
– ef vilji er fyrir hendi.
„Ég er sannfærður um að sú staðreynd að niðurstaða kosninganna verði ekki bindandi hafi haft áhrif á það hversu fáir mættu á fundinn. Umræður voru samt góðar og fjörugar og baráttuandinn hjá þeim sem eru á móti efldist við fundinn,“ segir Benóný Harðarson, fundarstjóri og einn skipuleggjenda íbúafundar á Mánagrund í Reykjanesbæ í vikunni. Tilefni fundarins var bygging kísilvers Thorsils í Helguvík en milli 40 og 50 manns mættu á fundinn.
Hópurinn sem að fundinum stóð safnaði í sumar undirskriftum yfir 25 prósent kosningabærra íbúa Reykjanesbæjar sem vilja fá að kjósa um breytingu á deiliskipulagi í Helguvík vegna fyrirhugaðrar byggingar kísilversins.
Áætlað er að kosningarnar muni fara fram 8. til 20. nóvember en bæjarstjórn hefur samþykkt að niðurstaða þeirra verði ekki bindandi. „Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri, sagði að kosningarnar myndu ekki skipta neinu máli en það verða haldnir fleiri fundir fyrir kosningarnar og fólk verður að gera sér grein fyrir að auðvitað skipta niðurstöðurnar máli sama hvað bæjarstjórinn segir,“ sagði Benóný.
Friðjón Einarsson, forseti bæjarráðs Reykjanesbæjar, hélt erindi á fundinum og segir Benoný það hafa verið mjög jákvætt. „Hann fór yfir málið frá sínum sjónarhóli sem var mjög gott en ég er ekki sammála honum. Það kom fram í máli hans að bæjarstjórn hefði fengið samning um byggingu kísilvers Thorsil í hendurnar frá fyrri bæjarstjórn. Sá samningur var gerður áður en farið var með málið í umhverfismat og það er auðvitað algjört brjálæði að gera samning áður en allt liggur fyrir. Bæjaryfirvöld þurfa að gera sér grein fyrir því að þau vinna fyrir íbúa Reykjanesbæjar en ekki erlent stórfyrirtæki. Það er alltaf hægt að komast út úr samningum ef viljinn er fyrir hendi.“
Benóný segir mikilvægt að fá öll gögn upp á borðið og eyða allri óvissu í kringum byggingu kísilversins. „Í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram kemur fram að ekki verði hægt að tryggja að ekki nein hætta stafi af starfseminni.“
Samkvæmt áætlunum mun kísilver Thorsil hefja starfsemi árið 2017 en ári áður mun kísilver Silicon United hefja starfsemi sína í Helguvík. Benoný segir mikilvægt að gera umhverfismat sem byggi á því að á svæðinu verði starfrækt tvö kísilver og jafnvel meiri stóriðja. „Það er til skoðun á hverju fyrir sig en ekki á samanlögðum áhrifum. Það verður að skoða allar hliðar þessa máls og þetta er ekki eitthvað sem skiptir aðeins máli fyrir íbúa Reykjanesbæjar, heldur alla Íslendinga.“
Í niðurstöðu mats Skipulagsstofununar á umhverfisáhrifum í Helguvík frá 1. apríl síðastliðnum kemur meðal annars fram að stofnunin telji að þó Thorsil hafi sýnt fram á að styrkur annarra mengunarefna en brennisteinsdíoxíðs muni verða innan viðmiðunarmarka utan þess þynningarsvæðis sem hefur verið afmarkað fyrir álver Norðuráls þá muni loftgæði á svæðinu umhverfis Helguvík rýrna talsvert vegna efna úr samanlögðum útblæstri frá fyrirhugaðri starfsemi Thorsil, Norðuráls og United Silicon á svæðinu. Þar sem um er að ræða mikið magn mengunarefna sem muni berast út í andrúmsloftið nærri íbúðarbyggð muni áhrifin verða talsvert neikvæð.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur gefið það út að ekki sé hægt að gera neitt í málinu og hún muni standa við gerða samninga við Thorsil. Það ítrekaði Friðjón Einarsson á fundinum og við fjölmiðla í gær. Fjárfesting kísilveranna tveggja nemur nærri 50 milljörðum króna og mun veita mörg hundruð störf á uppbyggingartíma og til framtíðar litið.