ALLT VITLAUST Í VOGUM
Hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps veitti, á hreppsnefndarfundi 3. mars sl., Olíufélaginu heimild til að starfrækja matarverslun og bensínstöð í Vogaseli.Greiddi minnihluti atkvæði gegn framgangi málsins og allmargir bæjarbúar undirrituðu mótmælaskjal gegn fyrirhugaðri bensínafgreiðslu. Grenndarkönnun bygginga- og skipulagsnefndar kallaði á tvo mótmælalista og íbúar Fagradals 13 og 14 mótmæltu bréflega. Matvaran kostar bensínafgreiðsluJóhanna Reynisdóttir, sveitarstjóri, sagði það mest um vert að með þessu væri komin matarverslun í bæjarfélagið en slíkt hefur ekki verið í boði í nokkurn tíma. Eflaust væri til heppilegri staður fyrir bensíndælur en eldvarnareftirlitið setti sig ekki gegn staðsetningunni og bensínstöðin verður byggð skv. öllum reglum um útloftun og mengun. Þá sagði hún fyrirhugað að reisa skjólvegg fyrir íbúa Fagradal 13 sem búa næst fyrirhugaðri bensínafgreiðslu. Hún kvaðst ekki hafa þá trú að umferð yrði mikil og mestu skipti að fólk hefði aðgang að matvöruverslun í byggðarlaginu. Kjartan Hilmisson, sem býr að Fagradal 13 er ósáttur við afgreiðslu sveitarstjórnar. „Þessi væntanlega bensínstöð er við hliðina á heimili mínu og svefnherbergisgluggi í u.þ.b. 2 metra fjarlægð frá lóðarmörkum. Þótt ég sjái nauðsyn þess og hag bæjarfélagsins í komu matvöruverslunar er staðsetning bensínafgreiðslu svo nærri íbúðarbyggð ómöguleg lausn á þessum vanda. Þá er ég þakklátur útsýnishugmyndum sveitarstjórnar en þeir eru tilbúnir að reisa skjólvegg fyrir fjölskylduna að horfa á. Sveitarstjórn ætti að sjá sóma sinn í að breyta þessari ákvörðun sinni enda tel ég 80% Vogabúa á móti þessum gjörning. Hef ég leitað aðstoðar lögmanns húseigandafélagsins varðandi rétt minn og annarra nábúa fyrirhugaðrar bensínafgreiðslu Olíufélagsins.“