Allt vaðandi í makríl við Grindavík
Vaðandi makríll hefur verið rétt utan við höfnina í Grindavík undanfarna daga eins og fram kemur á vefnum kvotinn.is. Þá er makríllinn fullur af átu sem gerir það að verkum að nauðsynlegt er að kæla makrílinn fljótt og vel.
Eins og segir í frétt vefsíðunnar, óð makríllinn í innsiglingunni þar sem hún byrjar að dýpka. Hilmar Helgason, skipstjóri á Hrafni Sveinbjarnarsyni GK sá t.d. marga litla flekki eina og hálfa til tvær mílur frá landi þegar hann var að koma inn til löndunar um helgina. „Þetta eru svona flekkir eins og við höfum verið að kasta á utar í Grindavíkurdýpinu,“ sagði Hilmar í samtali við kvotinn. is.
Hilmar segir í viðtalinu að það sé því ljóst að makríllinn sé að ganga upp að landinu, en reyndar hefur enginn makríll enn fundist fyrir austan Kötlutanga og telur Hilmar að það sé vegna kaldari sjávar þar. Það geti hins vegar verið fljótt að breytast. „Það er mikil áta í makrílnum þarna úti. Það er mjög mikið af átu sem kemur á dekkið, þegar maður er að hífa upp úr átuflekkjunum sem makríllinn er að djöflast utan í er átan í haugum á dekkinu. Það er því nóg fyrir hann að éta og meðan hann liggur í átunni fer hann ekki í þorskseiði og önnur seiði.
Átan í makrílnum skapar ákveðin vandamál við vinnslu á honum, ef fiskurinn er fullur af henni þegar hann er veiddur. Átan étur hann þá innanfrá. Annars virðist hann vera mjög fljótur að losa sig við átuna úr sér aftur í sjónum. „Því er mikilvægt að ná að kæla hann strax niður til að stöðva niðurbrot vegna átunnar og við bestu aðstæður erum við að ná hitastiginu í makrílnum niður í mínus eina og hálfa gráðu á tveimur tímum. Við byrjum kælinguna í móttökunni og keyrum fiskinn svo fram eftir skipinu í kör með krapa í. Við höldum hitastiginu allan tímann svona lágu, því það styttir svo frystitímann um allt að hálftíma og það munar miklu í afköstum. Við erum með mjög öflugt kælikerfi sem nær að framleiða allt að fjögur þúsund lítra af ískrapa á klukkustund og það skiptir miklu máli,“ segir Hilmar. Hægt er að lesa allt viðtalið við Hilmar á vefsíðunni kvotinn.is