Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Allt kapp lagt á að ná skipinu Guðrúnu Gísladóttur upp sem fyrst
Laugardagur 4. janúar 2003 kl. 19:13

Allt kapp lagt á að ná skipinu Guðrúnu Gísladóttur upp sem fyrst

Undirbúningur vegna björgunar Guðrúnar Gísladóttur KE-15, sem liggur á 40 metra dýpi undan ströndum N-Noregs, er aftur kominn á fullt eftir nokkurra daga jólafrí björgunarteymisins á Íslandi. Ásgeir Logi Ásgeirsson, verkefnastjóri aðgerða í Noregi, segir stefnt að því að skipið verði komið til hafnar fyrir miðjan janúar. Það fari þó eftir veðri. Morgunblaðið segir frá.Upphaflega stóð til að skipið væri komið til hafnar fyrir jól, en veður tafði aðgerðirnar. Nú er verið að flytja viðbótarbaujur til Lófóten sem munu gera björgunarmönnum kleift að stýra tönkum sem á að sökkva niður að skipinu og nota til að lyfta því upp á yfirborð sjávar, segir í Morgunblaðinu.

Ásgeir Logi reiknar með að allar baujurnar verði komnar um helgina og þá geti lokaundirbúningur hafist. Veðurspáin er ágæt að hans sögn. „Það er reyndar svolítið kalt, en það hefur verið stillt og gott veður. Ég vona bara að það haldist.“

Mengunarvarnir norska ríkisins (SFT) gáfu eigendum skipsins tíma til áramóta til að fjarlægja olíuna úr skipinu, en eigendur hafa frest til maí til að koma skipinu af hafsbotni. Ásgeir segir að norsk yfirvöld sýni skilning á því að menn fái ekki við veðrið ráðið.

„Það kom þessi suðvestan hvellur, sá eini sem komið hefur í haust. Hann gerði það að verkum að helmingurinn af kafaradögunum fór í landlegu,“ segir Ásgeir, en alls koma fjórtán Íslendingar að aðgerðunum auk tólf norskra kafara. Ákveðið hafi verið að fjarlægja bæði skip og olíu í einu, loka mengunina inni í skipinu og koma með það þannig að bryggju í stað þess að gata olíutankana. Um borð í skipinu þegar það sökk voru 870 tonn af frystri síld og 300 tonn af olíu.

„Þetta er mikil aðgerð, stórt verkefni sem hefur ekki verið unnið áður og þó við höfum áætlað að gera hlutina á einn veg getur komið í ljós að ekki sé hægt að gera þá þannig. Þá þurfa menn að leika af fingrum fram og finna lausnir sem ganga. Óneitanlega hafa komið upp slík atvik sem tefja verkefnið,“ segir Ásgeir Logi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024