Allt í plati!
- Þrjú aprílgöbb hjá Víkurfréttum í gær.
Varla fór fram hjá neinum að fyrsti apríl var í gær. Eins og flestir aðrir fjölmiðlar gerðu Víkurfréttir þrjár tilraunir til að fá lesendur sína til að hlaupa apríl.
Sagt var frá stórútsölu Fríhafnarinnar sem stóð til að halda í fyrsta sinn í Keflavík, þar sem Arion banki var áður til húsa að Hafnargötu 90. Þar áttu að vera til sölu Victoria's Secret undirfatnaður, þekkt rafmagnstæki og sælgæti á útsölu-Fríhafnarverði. Í „viðtali“ sagði Ásta Dís Óladóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, að fengist hefði undanþága fyrir útsölunni vegna þess að safnast hefði upp lager á undanförnum árum.
Þá greindum við frá því að 15 fermetra manngengur hellir hefði fundist í holu á Tjarnargötu þar sem vatnslögn hafði gefið sig. Starfsmenn frá HS Veitum hefðu grafið niður á hellinn. Ellert Grétarsson, mikill áhugamaður um hellaskoðun, var látinn vera fyrsti maðurinn til að skríða ofan í holuna.
Einnig var Dagur B. Eggertsson kynntur til leiks sem bæjarstjóraefni Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ og myndi kynna framboðslistann í hádeginu þann dag. Núverandi oddviti Samfylkingarinnar, Friðjón Einarsson, var sagður vera ánægður með að hafa landað Degi.