Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Allt að fyllast í heimboði Flugakademíu Keilis
Þriðjudagur 25. mars 2014 kl. 14:56

Allt að fyllast í heimboði Flugakademíu Keilis

Einungis örfá sæti eru laus á opinn upplýsingadag Flugakademíu Keilis laugardaginn 5. apríl næstkomandi, en þá verður skólinn með „heimboð fyrir verðandi atvinnuflugmenn“. Skólinn opnar dyrnar og býður áhugasömum að kynna sér fyrirkomulag og uppbyggingu flugnáms, skoða aðstöðu og kennsluvélar Keilis, auk þess að fá innsýn í atvinnumöguleika og almennt starf flugmannsins.

Meðal annars munu flugkennarar og yfirkennarar bóklegs flugnáms segja frá náminu, núverandi atvinnuflugmenn segja frá starfi sínu og fulltrúi hins þekkta flugskóla Embry-Riddle í Bandaríkjunum segja frá framtíðar möguleikum atvinnuflugmanna. Áhersla er lögð á persónulega móttöku og vettvang fyrir gesti að fá svar við þeim spurningum sem á þeim brenna.

Boðið verður upp á kynnisflug á sérstöku tilboðsverði fyrir þátttakendur. Gestum er velkomið að taka með sér foreldra, maka eða aðra þá sem hafa löngun til að fá innsýn inn í þennan heim.

Kynningin fer fram í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú og verklegri deild Flugakademíunnar á Keflavíkurflugvelli. Vinsamlegast munið að taka með ykkur skilríki (vegabréf eða ökuskírteini) þar sem farið verður inn á flugverndarsvæði Keflavíkurflugvallar við heimsókn í verklega deild Flugakademíu Keilis. Ekkert þátttökugjald, en nauðsynlegt er að skrá þátttöku.

Vertu velkomin(n) á upplýsingadag Flugakademíu Keilis laugardaginn 5. apríl kl. 10 - 14.

Nánari upplýsingar.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024