Allt að 3000 gestir á dag í Bláa Lóninu
Viðskiptablaðið fjallar um aðgangstölur Bláa Lónsins í dag og greinir frá því að meðalfjöldi gesta í Bláa Lóninu yfir sumartímann sé um 2500 manns. Þegar fjölmennast er í lóninu fara um 3000 gestir þar í gegn.
Ferðamenn sem og Íslendingar hafa nýtt sér miðnæturopnun og lengri opnunartíma yfir hásumarið en Bláa Lónið er nú opið frá kl. 09:00 til miðnættis frá 1. júlí til og með 15. ágúst. Lengri opnunartími hefur haft það með sér í för að gestafjöldinn dreifist betur og verður upplifunin því eflaust ánægjulegri fyrir gesti.
Það kemur eflaust engum á óvart að aðsóknin er meiri í lónið þegar sólin skín en hins vegar hafa árskortin komið sterk inn hjá Íslendingunum sem koma oftar og nýta sér þá fjölbreytt tilboð sem í boði eru fyrir klúbbmeðlimi.