Allsherjar endurskoðun á leigusamningum við Fasteign
Fulltrúar allra flokka í bæjarpólitíkinni í Sandgerði munu koma að gerð fjárhagsáætlunar bæjarfélagsins fyrir næsta ár, samkvæmt samþykkt bæjarráðs í fyrradag.
Á meðal þess sem liggur fyrir við gerð áætlunarinnar er allsherjar endurskoðun allra leigusamninga við Fasteign ehf.
Fulltrúi B- lista hafði óskað eftir því á fundi bæjarstjórnar nýverið að fá seturétt í bæjarráði með málfrelsi og tillögurétt við vinnslu fjárhagsáætlunar 2010 og þriggja ára áætlun. Skiptar skoðanir munu hafa verið innan meirihlutans um það mál en niðurstaðan á bæjarstjórnarfundinum var sú að bæjarráð tæki málið til afgreiðslu.
Í framhaldi lagði meirihluti bæjarráðs til að gengið yrði til áframhaldandi samstarfs um gerð fjárhagsáætlunar á milli meirihluta og minnihluta sem var komið á, á haustdögum árið 2008. Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að reynslan af því hafi verið góð á heildina litið.
Í fundargerð bæjarráðs kemur fram að vert sé að hafa í huga að breytingar á áætlun 2009
hafi ekki verið endanlega samþykktar en þó sé ljóst að útkoman sé í takt við umhverfið. Framtíðin verði heldur dekkri en ætlað var.
Búast má við að helsti flöskuhálsinn í samstarfinu verði málefni Fasteignar ehf. Bæjarstjórn samþykkti samhljóða nýverið að leigusamningar Fasteignar ehf. og Sandgerðisbæjar yrðu teknir til allsherjar endurskoðunar við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2010.
Bæjarstjórn mun fara rækilega yfir umrædda samninga og taka til afgreiðslu tvær úttektir á rekstri félagsins sem stjórn Fasteignar ehf. hefur verið með í vinnslu, að því er fram kemur í fundargerð. Um er að ræða skýrslur frá KPMG og Capacent.
Sjá nánar fundargerð bæjarráðs hér