Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Allir sálfræðingar Reykjanesbæjar hafa sagt upp störfum
Föstudagur 5. desember 2014 kl. 15:09

Allir sálfræðingar Reykjanesbæjar hafa sagt upp störfum

-Það er ekki hægt að takast á við svona stórt verkefni án þess að einhverjum líki eitthvað illa,“ segir bæjarstjórinn.

Allir sálfræðingar á fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar hafa sagt störfum sínum lausum. Fræðsluráð Reykjanesbæjar lýsir yfir áhyggjum yfir ástandinu á síðasta fundi sínum og þykir mikilvægt að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir en sálfræðingarnir eru fjórir talsins.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir að staðan sé mjög slæm. Hann segir að lítið annað hafi verið gert en að ræða starfsmannamálin á skrifstofum Reykjanesbæjar undanfarnar vikur.
„Þetta er ekki góð staða, í rauninni mjög slæm. Það er alltaf viðbúið að þeir aðilar sem eiga auðvelt með að fá vinnu annars staðar, segi upp og fari. Við munum auglýsa þessar stöður til umsóknar og vonandi sækja einhverjir um,“ sagði Kjartan í samtali við Víkurfréttir. Þeir fjórir sálfræðingar sem starfa hjá bænum munu starfa þar til 1. mars. „Þetta er allt í góðu og engin leiðindi. Þeir telja sig geta fengið betri laun annars staðar og við keppum ekki við það eins og fjárhagsstaðan er, því miður. Þetta er háskólamenntað fólk sem vill vinna annars staðar og hef ég fullan skilning á því. Þetta er reynslumikið og hæft fólk sem menn vilja hafa í vinnu og það verður eftirsjá af því fyrir okkur,“ bætti bæjarstjórinn við.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kjartan segist ekki efast um að einhverjir starfsmenn hugsi sér til hreyfings en auk sálfræðinganna hafa þrír starfsmenn á félagssviði Reykjanesbæjar sagt upp störfum. Fjárhagsstaða bæjarfélagsins var enn til umræðu á bæjarstjórnarfundi í vikunni og gustaði þar verulega á milli manna. Bæjarstjórinn sagði að ekkert sveitarfélag af þessari stærðargráðu hafi verið í þessari stöðu sem Reykjanesbær er í núna. „Það er vel fylgst með því sem við erum að gera. Við erum örugglega að gera einhver mistök og við eigum örugglega eftir að gera einhver mistök á leiðinni. Það breytir því ekki að stóra myndin er að koma Reykjanesbæ fyrir vind úr þessari stöðu sem við erum í. Við megum ekki missa sjónar af stóra verkefninu. Það er bara ekki hægt að takast á við svona stórt verkefni án þess að einhverjum líki eitthvað illa, “ sagði bæjarstjórinn.