Allir nýburar fá listaverks samfellu að gjöf
-Afurð af námskeiði Samvinnu hjá Miðstöð Símenntunar á Suðurnesjum
Fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja mun klæða alla nýbura í nýjar samfellur sem deildin fékk að gjöf frá nokkrum aðilum. Um er að ræða sérhannaða samfellu með prentaðri mynd framan á sem teiknuð var af listakonunni Sigríði Karólínu Magnúsdóttur og samfellurnar eru frá Lindex sem gaf 150 samfellur í verkefnið.
Tilkoma þessara samfella er skemmtileg. Í vetur var haldið námskeið hjá Samvinnu í þróun vöru og þjónustu. Markmið námskeiðsins var að virkja nemendur í að koma með hugmyndir að mögulegum vörum eða þjónustu sem gæti nýst nærsamfélaginu.
Kennslan fór þannig fram að nemendur tóku virkan þátt í að skapa afurð og tilurð hennar með notkun vöruþróunarferlis. Vöruþróunarferlið tekur á þáttum eins og skoðun hugmynda, grisjun, mati og fullvinnslu hugmyndar. Þá er unnið að kostnaðar-, framleiðslu- og markaðsáætlun fyrir vöruna eða þjónustuna sem ákveðið er að framleiða.
Að þessu sinni kom hópurinn með hugmynd að framleiðslu fatnaðar fyrir nýbura. Um er að ræða samfellu fyrir nýbura sem fæðast á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Ólöf Snæbjörg Guðmundsdóttir, sem jafnframt átti þessa skemmtileg hugmynd, kom einnig með tillögu um að prenta mynd á samfelluna eftir listamann af Suðurnesjum. Að þessu sinni er listamaðurinn Sigríður Karólína Magnúsdóttir en hún er einnig nemandi á námskeiðinu. Fyrirhugað er að verkefnið lifi áfram og á næsta ári verði gefin samfella með mynd eftir annan listamann. Verkefnið gæti þá þróast út í að bjóða listamönnum á svæðinu að kynna verk sín og síðan færi fram lýðræðislegt val á verki á næstu samfellu.
Áætlað er að allt að 150 börn fæðist á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á árinu 2019. Hvert barn sem fæðist á deildinni fær samfellu gefins og getur notað eftir að heim er komið. Þá var styrktaraðilum verkefnisins þakkað við afhendingu fyrstu samfellunnar á sjúkrahúsinu í síðustu viku, Lindex fyrir að leggja til þennan vandaða fatnað sem samfellurnar eru, Nettó og Reykjanesapóteki fyrir að framlag sitt vegna ásetningar listaverksins á samfellurnar og síðast en ekki síst Samvinnu MSS fyrir að bjóða upp á þetta námskeið.
Hugmyndasmiðurinn Ólöf Snæbjörg Guðmundsdóttir, Jónína Birgisdóttir frá fæðingardeildinni og Sigríður Karólína listakona sem hannaði myndina á samfelluna.