Allir með hreint borð
Við endurskoðun fjárhagsáætlunar og gerð ársreiknings fyrir sveitarfélagið Voga kannaði KPMG hagsmunatengsl milli sveitarfélagsins, kjörinna fulltrúa og tengdra aðila, s.s. maka og lögráða barna. Ekkert athugavert mun hafa komið í ljós við þá skoðun.
Málið kom til umræðu á síðasta bæjarráðsfundi vegna fyrirspurnar bæjarfulltrúa H-lista um hagsmunatengsl kjörinna fulltrúa.
KPMG mun m.a. hafa kannað stjórnarsetur og eignarhluti kjörinna fulltrúa í félögum.
Í ársreikningi ársins 2008 og endurskoðunarskýrslu er ekki gerð grein fyrir hagsmunatengslum kjörinna fulltrúa. Í svari frá endurskoðanda þann 13. júlí kemur fram að ekkert athugavert hafi komið fram við athugunina og því þótti ekki ástæða til að geta hennar sérstaklega í ársreikningi eða endurskoðunarskýrslu.