Allir fengu hlutverk eftir fótbrot í Fagradalsfjalli
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík sótti í gær konu sem hafði fótbrotnað í Fagradalsfjalli. Útkallið barst um klukkan 14 og rúmlega klukkustund síðar var viðkomandi komin í sjúkrabíl.
Á fésbókarsíðu björgunarsveitarinnar er birt mynd þar sem sjá má mæðgur í fylgd með björgunarsveitarfólki niður af Fagradalsfjalli. Móðirin lenti í því að fótbrotna ofarlega í fjallinu og liggur í börum í buggybílnum. Unga stúlkan fékk það verkefni að passa skó móður sinnar á meðan svo allir hefðu eitthvað hlutverk á leiðinni niður.