Allir 60 ára og eldri fari í inflúensubólusetningu
Hjá HSS var byrjað að bólusetja við inflúensu í september og verður því haldið áfram fram í janúar. Fólk er hvatt til að koma í inflúensubólusetningu og hefur sóttvarnalæknir mælst til þess að eftirfarandi hópar njóti forgangs: 60 ára og eldri, öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- eða lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum. Þá eru þungaðar konur og heilbrigðisstarfsmenn sem annast sjúka einnig sérstaklega hvött til að fara í bólusetningu. Allir aðrir sem vilja eru velkomnir. Fullfrískt fólk getur einnig veikst illa af inflúensu en minni líkur eru á alvarlegum fylgikvillum hjá þeim.
Samkvæmt upplýsingum af vef Embættis landlæknis geta flestar bólusetningar valdið einhverjum aukaverkunum. Alvarlegar aukaverkanir bólusetninga eru mjög fátíðar en geta sést eftir um það bil eina af hverri 500.000 til 1.000.000 bólusetningum. Hugsanlegur skaði af bólusetningu er því margfalt minni en sá skaði sem hlýst af sjúkdómnum sem bólusetningin kemur í veg fyrir. Meðal algengra aukaverkana eru hiti og vægar staðbundnar aukaverkanir með roða, eymslum og hersli á stungustað en þær líða að jafnaði frá innan tveggja sólahringa.
Sóttvarnalæknir bendir á að fjölmargar rannsóknir á inflúensubólusetningu hjá öldruðum hafi sýnt að þær komi í veg fyrir inflúensusýkingu og alvarlegar afleiðingar hennar. Cochrane-stofnunin hefur á undanförnum árum birt mat sitt á rannsóknum á inflúensubólusetningu og komist að því að bólusetningin sé gagnleg öldruðum og öðrum þeim sem þola sýkinguna illa. Þessi niðurstaða er í samræmi við niðurstöðu annarra ábyrgra aðila eins og amerísku sóttvarnastofnunarinnar og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur að bólusetningar gegn inflúensu geti dregið úr sjúkrahúsinnlögnum aldraðra utan stofnana sem nemur 25 til 30 prósent og jafnframt geti þær dregið úr heildardánartíðni aldraðra um 39 til 70 prósent þegar inflúensufaraldur gengur. Sóttvarnalæknir telur að inflúensubólusetning almennt verndi allt að 60 til 80 prósent bólusettra gegn inflúensu, allt eftir því hversu góð samsvörun er á milli bóluefnisins og inflúensuveirunnar sem geisar.