Algerlega óásættanleg framkoma
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar tekur undir sjónarmið Brunavarna Suðurnesja varðandi það ófremdarástand sem er að skapast í sjúkraflutningum á svæðinu.
„Ríkið hefur nú ákveðið einhliða að greiða 70 milljónir kr. fyrir sjúkraflutninga sem kosta 130 milljónir kr. á ári. Sjúkraflutningar eru alfarið á ábyrgð ríkisins og Brunavarnir Suðurnesja hafa sinnt þessu verkefni fyrir ríkið. Komið hefur fram að mikil samlegðaráhrif eru af rekstri sjúkraflutninga og brunavarna sem er hagur fyrir ríkið.
Með þessu framferði hefur ríkið einhliða sagt upp samningi um sjúkraflutninga á sama tíma og upplýst er að verulega skortir á að HSS sitji við sama borð í fjárlögum og aðrar sjúkrastofnanir. Þetta er að mati bæjarfulltrúa algerlega óásættanleg framkoma í garð íbúa svæðisins,“ segir í bókun sem Árni Sigfússon, bæjarstjóri, lagi fram og var samþykkt á bæjarstjórnarfundi í gær.
---
Tengdar fréttir:
Ríkið setur sjúkraflutninga á Suðurnesjum í uppnám
Áratuga misræmi í framlögum ríkisins verði leiðrétt