Aldrei fleiri tómstundir í boði í Reykjanesbæ
Nú er komið út hið árlega vefrit Sumar í Reykjanesbæ 2013, þar sem tíunduð eru margvísleg afþreyingar- og fræðslunámskeið fyrir börn og ungmenni í Reykjanesbæ. Má þar nefna hið hefðbundna sundnámskeið, golf hjá GS, smíðavellir, reiðskóla Mána, dans, list- og söngnámskeið, Sumarfjör Fjörheima og sumarlestur Bókasafnsins.
Fimleikadeildin verður með námskeið sem hún nefnir Fimleikar og fjör og knattspyrnudeild Keflavíkur verður með knattspyrnuskóla fyrir 4-6 ára. Svo er KFUM og K með leikjanámskeið fyrir 6-9 ára. UMFN verður með Sport- og ævintýraskóla líkt og undanfarin ár. Í vefritinu er að finna upplýsingar um Vinnuskólann og ný kort af gönguleiðum bæjarins o.fl. Að auki er nú boðið upp á í fyrsta sinn tölvuleikjaforritun fyrir börn og unglinga á aldursbilinu 7-16 ára.
Íþrótta- og tómstundasvið Reykjanesbæjar hvetur foreldra og forráðamenn að kynna sér vel efni ritsins og finna námskeið við hæfi hvers og eins. Gjaldi er stillt í hóf og mjög margir bjóða upp á systkinaafslátt.