Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aldrei er gömul vísa of oft kveðin - Stuðningur foreldra mikilvægur
Miðvikudagur 28. apríl 2004 kl. 17:23

Aldrei er gömul vísa of oft kveðin - Stuðningur foreldra mikilvægur

Nú styttist í samræmdu prófin í grunnskólum landsins. Fyrsta prófið verður 3. maí nk. og nemendur þegar farnir að undirbúa sig. Námsgreinarnar sem eru til samræmds prófs eru íslenska, stærðfræði, náttúrufræði, samfélagsfræði, enska og danska. Víkurfréttir leituðu til Ölmu Vestmann námsráðgjafa í Myllubakkaskóla og fengu hjá henni ráð fyrir nemendur og foreldra fyrir undirbúning samræmdu prófanna.
 
Alma segir að það sem skipti mestu máli fyrir undirbúning nemenda fyrir samræmdu prófin sé að ætla sér tíma til undirbúnings og standa við hann. „Nemendurnir mega ekki setja sér of há markmið varðandi lestur. Setji þau sér of há markmið sem þau ná ekki að standa við, geta þau misst kjarkinn, slegið hlutunum á frest og jafnvel fyllst prófkvíða. Ég segi við mín börn að reyna að setja sér áætlun sem þau geta staðið við. Þá verða þau ánægðari með sig og þeim líður betur.  Þau geta alltaf sett sér hærri markmið ef þau sjá að þau valda þeim.,“ segir Alma og nefnir að það skipti miklu máli að þau fái næði. „Þau þurfa að hafa ákveðinn stað þar sem þau geta unnið í friði og þar sem þeim líður vel.“
 
Öll prófin skipta máli
Samræmdu prófin samanstanda af 6 námsgreinum og segir Alma að þau skipti öll miklu máli. „Ég get ekki ráðlagt nemendum að leggja meiri áherslu á eitt fag en annað, það fer í raun eftir einstaklingnum. En persónulega finnst mér íslenskuprófið vera mjög umfangsmikið og íslenska og stærðfræði eru grunngreinar í mörgum framhaldsdeildum,“ segir Alma og bætir við að útkoma úr samræmdu prófunum skipti verulegu máli fyrir nemendurna. „Það er að sjálfsögðu val nemenda hvað þau ætla sér að læra í framhaldinu en ég tel að allar greinarnar séu jafnmikilvægar. Útkoma úr samræmdu prófunum skiptir máli því prófin eru ákveðið flokkunarkerfi sem komið hefur verið á til að flokka nemendur inn í framhaldsskólanna. Með því að ná sem bestum árangri í öllum greinum þá loka þau engri leið og koma betur undirbúin til framhaldsnáms.“
 
Stuðningur foreldra mikilvægur

Foreldrar geta með ýmsu móti stutt við bakið á börnum sínum við undirbúning undir samræmdu prófin. Alma segir að það skipti máli að foreldrarnir sýni undirbúningnum áhuga. „Foreldrarnir geta stutt þau með því að skapa þeim aðstöðu og hvetja þau áfram. Ef tölva er til á heimilinu ,skiptir máli að foreldrarnir aðstoði þau við að ná í ýmis hjálpargögn á netinu. Hægt er að fara á vef námsmatsstofnunar (namsmat.is) og fá þar gömul samræmd próf og æfingarpróf. Það er einnig hægt að fara inn á skólavefinn sem grunnskólar hafa aðgang að og sumir skólar bæjarins hafa keypt aðgang að Stoðkennaranum sem býður upp á margskonar æfingar“ Fyllist nemendur vonleysi, þarf að benda þeim á að þær hugsanir hjálpi þeim ekki og betra sé að líta til baka á gamlar hindranir sem þau hafa yfirstigið. Þau þurfa að venja sig á að líta á sterku hliðarnar sínar en forðast að gera of mikið úr veikleikunum", segir Alma.
 
Kvöldið fyrir próf ætti að vera rólegt
Alma segir að það sé mikilvægt fyrir nemendurna að líta á prófin sem ögrandi verkefni . „Það skiptir miklu máli að foreldrarnir passi upp á að þau hafi næði. Þau hafa undirbúið sig fyrir prófin síðustu 3 árin og kvöldið fyrir próf á að vera rólegt því það skiptir máli fyrir nemandann að fá góðan svefn fyrir próf. Það er líka mjög jákvætt að líta á prófin sem eitthvað til að spreyta sig á og hafa gaman af því að leysa verkefnin.“
 
Góð ráð hér að neðan!
 
 
Ætlaðu þér ákveðinn tíma fyrir hvert fag. Leggðu áherslu á að standa við tímamörkin og bættu frekar við þau.
 
Skrifaðu markmið þín fyrir undirbúninginn niður á blað  og þegar þú ert búinn að lesa fyrir eitt fag, strikaðu þá yfir það markmið. Með þessu sérðu áþreifanlegan árangur af lestrinum og þér líður vel þegar þú sérð hvað þér gengur vel.
 
Finndu þér stað þar sem þú getur verið í algjöru næði við að læra og best er að vera þar sem þér líður vel.
 
Taktu þér pásur á milli en vertu búinn að ákveða lengd þeirra fyrirfram.  
 
Þú skalt slaka vel á kvöldið fyrir próf og fara snemma að sofa. Það skiptir miklu máli að vera vel úthvíldur fyrir prófið.
 
Ef þú kannt að gera slökunaræfingar fyrir prófið, ættirðu að gera þær.
 
Þú hefur áður lent í kröppum dansi og komið vel út úr honum.
 
Líttu á prófið sem spennandi verkefni sem þú ætlar að spreyta þig á.
 
 
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024