Aldraðir fái notið hjúkrunarþjónustu í samræmi við þarfir
Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (S.S.S.) gerir ríka kröfu um að stjórnvöld tryggi að aldraðir íbúar á Suðurnesjum fái notið hjúkrunarþjónustu í samræmi við þarfir. Fundurinn var haldinn í Reykjanesbæ um helgina.
Samkvæmt skýrslu Haraldar Líndal Haraldssonar, „Garðvangur, hjúkrunarheimili,“ kemur í ljós að Suðurnes hafa setið eftir í samanburði við aðra landshluta hvað varðar fjölda hjúkrunarrýma miðað við þörf.
Aðalfundurinn bendir á að verulega vantar upp á að framboð á hjúkrunarþjónustu við aldraða á Suðurnesjum uppfylli þörf fyrir þjónustuna og standist samanburð við önnur heilbrigðisumdæmi í landinu. Þá vekur aðalfundur S.S.S. athygli á því að mikið vantar uppá að fjármunir sem skattgreiðendur greiða í Framkvæmdasjóð aldraðra séu nýttir til uppbyggingar hjúkrunarþjónustu fyrir aldraða í landinu.
Á næsta ári verður nýtt hjúkrunarheimili tekið í notkun að Nesvöllum í Reykjanesbæ, en þrátt fyrir það verður raunveruleg fjölgun hjúkrunarrýma á Suðurnesjum óveruleg. Aðalfundur S.S.S. telur ljóst að þrátt fyrir að öll þau hjúkrunarrými fyrir aldraða sem heimild er fyrir á Suðurnesjum verði nýtt, auk óverulegrar fjölgunar með tilkomu nýs hjúkrunarheimilis að Nesvöllum, þá uppfylli þau engan veginn áætlaða þörf fyrir hjúkrunarrými á Suðurnesjum.
Sú staðreynd er með öllu óásættanleg fyrir íbúa Suðurnesja og gerir aðalfundurinn því þá kröfu til stjórnvalda að þau standi með sveitarfélögunum á Suðurnesjum í þeirri viðleitni að byggja upp hjúkrunarþjónustu við aldraða sem uppfyllir þörf og stenst samanburð við önnur heilbrigðisumdæmi landsins, segir í ályktun aðalfundarins.