Aldraðir aftur á Garðvang
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar hefur samþykkt að ganga til samninga um leigu á húsnæði fyrir dagdvöl aldraðra, einnig að farið verði í þær úrbætur sem þörf er á húsnæðinu fyrir starfsemina í samræmi við minnisblað.
Þá hefur bæjarstjórn veitt heimild til að ganga frá samningum við Sjúkratryggingar Íslands vegna dagdvalarinnar sem verður til húsa á Garðvangi, þar sem áður var rekið dvalarheimili aldraðra áður en sú starfsemi fluttist á Hrafnistu í Reykjanesbæ. Suðurnesjabær tekur á leigu hluta húsnæðis Garðvangs en um er að ræða nýjasta hluta þess húss þar sem m.a. var dagstofa og ýmis önnur þjónusta á Garðvangi.