Alcan líst vel á Keilisnes
Forsvarsmönnum Alcans hér á landi líst vel á að reisa álver á Keilisnesi.
Fulltrúar frá ALcans, sem rekur álverið í Straumsvík ræddu í gær við bæjarstjórann í Vogum á Vatnsleysuströnd, en bærinn sér um skipulag á Keilisnesi, en þar á ríkið land.
Gunnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóri hjá Alcan, segir í samtali við Ríkisútvarpið að bæjaryfirvöld í Vogum hafi haft samband við Alcan að fyrra bragði og í kjölfarið hafi í gær verið haldinn óformlegur fundur með bæjarstjóranum, þar sem farið hafi verið yfir stöðu mála. Sér lítist ágætlega á að Alcan reisi álver á Keilisnesi, en ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum. Enn sé margt óunnið; til dæmis skipulag, auk þess sem umhverfisáhrif af hugsanlegu álveri á nesinu hafi ekki verið metin.
Einnig komi til greina að reisa álver við Þorlákshöfn. Fram kom í Blaðinu í gær að vatnsátöppunarverksmiðju sem þar er, lítist illa á að fá álver í næsta nágrenni. Gunnar segir að sum vandamál megi leysa, önnur séu óleysanleg. Hér sé á ferðinni mál sem fara verði yfir.
Hann segir Alcan velta fyrir sér ýmsum leiðum til stækkunar, enn sé ekki útilokað að álverið í Straumsvík verði stækkað á landfyllingu þar.
Mynd: Álver Alcan í Straumsvík ásamt tölvuteiknigu af stækkuðu álveri, sem var hafnað í íbúakosningu.