ÁKVÖRÐUN BÆJARSTJÓRNAR VEGNA CASINO FELLD ÚR GILDI
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar kom saman til fundar þann 18. nóvember s.l. þar sem úrskurður Úrskurðarnefndar um áfengismál var til umfjöllunar. Hann var á þá leið að bæjarstjórn væri skylt að veita Jóni M. Harðarsyni, eiganda Striksins ehf. fullt áfengisveitingaleyfi fyrir nektardansstaðinn Club Casino í Grófinni. Bæjarstjórn samþykkti þann 8. október að veita Jóni takmarkað áfengisveitingaleyfi, þ.e. til klukkan eitt eftir miðnætti alla daga vikunnar. Bæjarfulltrúar skiptust í tvo flokka á fundinum þann 18. nóvember, annars vegar þeir sem vildu veita Jóni fullt leyfi á grundvelli úrskurðar nefndarinnar og hins vegar þá sem töldu úrskurðinn gefa til kynna að vald sveitarfélaga til að ákvarða um eigin mál, væri þar með verulega takmarkað. Hinir síðar nefndu veltu þá fyrir sér spurningunni hvar valdið lægi, hjá Alþingi eða sveitarfélögum.Jóhann Geirdal (J) lagði fram tillögu um að hafna vínveitingaleyfi. Tillagan var felld 7-3, Ólafur Thordesen (J) sat hjá.Böðvar Jónsson (D) lagði fram tillögu um að Jóni M. yrði veitt fullt leyfi í samræmi við úrskurð nefndarinnar og undir hana rituðu Björk Guðjónsdóttir, Þorsteinn Erlingsson og Þorsteinn Árnason. Tillagan var borin upp í tvennu lagi. Fyrri hluti hennar, varðandi áfengisveitingaleyfi, var samþykktur 8-3. Sveindís Valdimarsdóttir (J), Kristmundur Ásmundsson (J) og Jóhann Geirdal (J) voru á móti. Seinni hluti tillögunnar, er varðar veitingatíma, var samþykktur með 5 atkvæðum. Sveindís Valdimarsdóttir, Kristmundur Ásmundsson, Jóhann Geirdal, Ellert Eiríksson, Skúli Þ. Skúlason og Jónína Sanders sátu hjá.