Ákvörðun bæjarráðs illkvittin
– segir Kristinn Jakobsson bæjarfulltrúi framóknar
Kristinn Jakobsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokks lagði á dögunum til að fundur bæjarráðs Reykjanesbæjar haldinn fimmtudaginn 27. ágúst 2015 samþykki að áheyrnarfulltrúar í bæjarráði njóti sömu kjara og aðrir bæjarráðsmenn. Undirbúningur og þátttaka þeirra í fundum bæjarráðs er síst minni en annarra bæjarráðsmanna. Reglur um laun bæjarfulltrúa, nefndarmanna og fundarritun starfsmanna hjá Reykjanesbæ voru til umfjöllunar á fundinum. Tillaga Kristins var felld með fjórum atkvæðum en einn sat hjá.
Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti á fundinum reglur um laun bæjarfulltrúa, nefndarmanna og fundarritun starfsmanna hjá Reykjanesbæ. Með ákvörðuninni er ekki verið að breyta launum bæjarfulltrúa og bæjarráðsmanna og ákvörðun sem tekin var um skerðingu launa á síðasta ári er fest í reglunum, segir í fundargögnum bæjarráðs.
Kristinn Jakobsson óskaði eftir að bóka eftirfarandi í kjölfar samþykktar bæjarráðs:
„Þessi ákvörðun bæjarráðs, að halda sig við þrönga túlkun á samþykktum Reykjanesbæjar um að ekki sé heimild til greiðslu launa fyrir áheyrnarfulltrúa í bæjarráði er óskiljanleg og því til háborinnar skammar. Túlkun bæjarráðs er ekki í neinu samræmi við það sem tíðkast í öðrum sveitarfélögum sem lúta sömu ákvæðum í sínum samþykktum. Því verður að telja þessa ákvörðun bæjarráðs einstaklega illkvittna. Hún er ekki neinu samræmi samræmi við góða stjórnsýslu og lýsir vanvirðingu við undirbúning áheyrnarfulltrúa og þátttöku þeirra í fundum bæjarráðs“.