Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Akurskóli í Reykjanesbæ sprunginn
Fimmtudagur 2. október 2014 kl. 14:03

Akurskóli í Reykjanesbæ sprunginn

– Eigum við að sætta okkur við að skólalóðin fyllist af færanlegum skólastofum?

Húsnæði Akurskóla í Innri Njarðvík er sprungið. Þar eru nú 460 nemendur en húsnæði skólans er hannað til að rúma með góðu móti 320 nemendur.

Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri Reykjanesbæjar, segir að nú sé leitað leiða til að nýta betur húsnæði skólans og koma betur til móts við þarfir nemenda.

Tveimur lausum kennslustofum hefur verið komið fyrir á lóð skólans og þriðju stofunni þarf sennilega að bæta við fyrir næsta skólaár. Þá segir Gylfi Jón að verið sé að skoða það að koma upp skilrúmum í tveimur rýmum í skólanum líkt og  gert var í Heiðarskóla á sínum tíma til að fjölga kennslurýmum þannig að betur fari um nemendur og minnka bekkjarstærðir.

Gylfi Jón segir þá stöðu sem skólinn er í vel þekkta um land allt. Skólahúsnæði er ætíð  byggt út frá áætlaðri þörf þegar hverfi er komið í jafnvægi og er orðið gróið. Það tíðkast um allt land að leysa tímabundna húsnæðisþörf með lausum kennslustofum líkt og gert er nú.

Akurskóli var tekinn í notkun árið 2005 og byggður eftir teikningum Heiðarskóla vegna góðrar reynslu af því húsnæði. Akurskóli er þó frábrugðinn þannig að hann er svokallaður opinn skóli en þar eru stór opin rými í stað hefðbundinna kennslustofa.

Foreldri barna við skólann segir í samtali við Víkurfréttir að nú sé verið að kenna 65 börnum í rými sem sé hannað til að vera með 40 börn. Það sé ekki ásættanlegt. Sigurbjörg Róbertsdóttir skólastjóri Akurskóla segir að rýmin séu hönnuð fyrir 65 nemendur.

Foreldrar barna í Akurskóla hafa verið boðaðir til fundar nk. miðvikudag, 8. október. Í fundarboði Foreldrafélags Akurskóla segir: „Glæsilegt skólahúsnæðið rúmar ekki fyrirhugaðan fjölda nemenda sem mun hefja skólagöngu á næstu árum. Þetta þýðir að það frábæra starf sem búið er að byggja upp og fram fer í Akurskóla kemur til með að eiga undir högg að sækja. […] Eigum við að sætta okkur við að ákveðnum árgöngum verði keyrt yfir í aðra skóla? Eigum við að sætta okkur við að skólalóðin fyllist af færanlegum skólastofum? Eigum við að krefjast þess að byrjað verði á framkvæmdum við Dalsskóla?“.

Gylfi Jón segir að ástandið í Akurskóla nú sé tímabundinn toppur en hliðstæða hafi orðið í Heiðarskóla sem á sínum tíma  hafi verið leyst með lausum kennslustofum. Í samtali við Víkurfréttir segir Gylfi Jón að nokkrar lausnir séu til skoðunar þessa dagana og verið sé að kostnaðarmeta þær þannig að hægt sé að kynna þær vel fyrir íbúum og pólitískum fulltrúum þannig að hægt sé að taka ákvörðun. Meðal möguleika sem hafa verið nefndir er að fjölga lausum kennslustofum við skólann, nýta laust kennslurými í Háaleitisskóla á Ásbrú, taka á leigu húsnæði í námunda við skólann og að setja niður lausar kennslustofur í Dalshverfi, þar sem íbúum er að fjölga
eða flýta byggingu nýs skóla. Gylfi Jón segir alla möguleika skoðaða fordómalaust.

Gylfi Jón segir að sér hugnist best lausnir fyrir börn í sínu skólahverfi, frekar en að setja upp skólaakstur með börn á milli hverfa. Hann áréttar að engar ákvarðanir hafi verið teknar og málið verði ekki verið tekið fyrir í fræðsluráði fyrr en á næsta fundi þegar kostnaðarmat liggur fyrir og eðlilegt sé í kjölfarið að kynna möguleika í stöðunni fyrir íbúum hverfisins. Hann áréttar að ef ákvörðun verði tekin um að hefja skólastarf í öðrum hverfum þá verði það aldrei gert án samráðs við íbúa og
kennara í hverfinu.

Næsti skóli sem mun rísa í Reykjanesbæ verður í Dalshverfi. Samkvæmt áætlunum bæjaryfirvalda er gert ráð fyrir að hann rísi innan fimm ára. Lausar kennslustofur við Akurskóla verða því væntanlega notaðar til þess tíma.

Athugasemd:
Sigurbjörg Róbertsdóttir skólastjóri Akurskóla segir ekki rétt að kennslurými séu hönnuð fyrir 40 nemendur. Þau séu hönnuð fyrir 65 nemendur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024