Aksturinn í toppmálum í Reykjanesbæ
Almenn ánægja er með ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk í Reykjanesbæ, að sögn Sigríðar Daníelsdóttur forstöðumanns ráðgjafadeildar fjölskyldu- og félagsþjónustu bæjarins í tilkynningu frá Reykjanesbæ.
„Ef að eitthvað kemur upp á þá hefur fólk samband og við leiðréttum það með góðri samvinnu. Ferðaþjónusta Reykjaness hefur sinnt þessari þjónustu vel og af alúð.“ Friðrik Guðmundundsson segir að aksturinn hafi alltaf gengið vel en hann nýtir Ferðaþjónustuna til allra sinna ferða.
Ferðaþjónusta Reykjaness var stofnað sem dótturfyrirtæki Hópferða Sævars Baldurssonar ehf. vorið 2007 í því skyni að mæta akstursþörfum fatlaðs fólks. Ferðaþjónustan og Reykjanesbær gerðu verksamning um aksturinn í Reykjanesbæ í september sama ár og hefur Ferðaþjónustan sinnt honum síðan.
Fyrirtækið er rekið af þeim hjónum Sævari Baldurssyni og Margréti Örnu Eggertsdóttur. Margrét Arna er þroskaþjálfi að mennt sem er mikill kostur þegar unnið er með fötluðu fólki.
Friðrik Guðmundsson hefur verið stórnotandi Ferðaþjónustu Reykjaness um nokkurt skeið. „Já ég er búinn að nota ferðaþjónustuna lengi og þetta hefur alltaf gengið vel. Ég er mjög ánægður með þjónustuna,“ sagði Friðrik sem var á heimleið frá undirbúningsfundi Listar án landamæra. Hann nota þjónustuna til og frá heimili í leik, starfi og námi og notar sérstaka akstursmiða sem honum eru úthlutaðir.
Sigríður Daníelsdóttir segir að heilt yfir og í gegnum árin hafi Reykjanesbær borið gæfu til þess að sinna þessu verkefni vel.
„Bæjarfélagið er af þeirri stærðargráðu að samband þjónustuaðila er náið og gott og það eru ekki margir bílstjórar sem sinna þessu, svo það er auðvelt að halda utan um þjónustuna.“
Notendur Ferðaþjónustunnar erum um 60 talsins. Um er að ræða akstur til og frá skóla, í dagdvalir, á vinnustaði og þjálfanir svo nokkuð sé nefnt. Sérútbúnir bílar eru notaðir til að sinna þessari þjónustu.