Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ákærð fyrir tilraun til manndráps
Þriðjudagur 1. desember 2009 kl. 21:23

Ákærð fyrir tilraun til manndráps

Ríkissaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur ungri konu sem stakk fimm ára stúlku með hnífi í haust. Atburðurinn átti sér stað á Suðurgötu í Reykjanesbæ. Konan er ákærð fyrir tilraun til manndráps og gæsluvarðhaldsúrskurður yfir henni hefur verið framlengdur í fjórar vikur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Ákæra Ríkissaksóknara kveður á um tilraun til manndráps og þess krafist að konan verði dæmd til refsingar en til vara að henni verði gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Einnig er þess krafist að hún verði dæmd til greiðslu alls sakarkostnaðar.


Fyrir hönd barnsins er krafist skaðabóta að upphæð rúmlega tveggja og hálfrar milljónar króna auk vaxta frá því er atburðurinn átti sér stað og fram til loka nóvember. Frá þeim tíma er krafist dráttarvaxta á upphæðina, segir í frétt á vef Ríkisútvarpsins.


Það var að morgni sunnudagsins 27. september að konan kvaddi dyra á heimili fjölskyldu í Keflavík og til dyra kom fimm ára stúlka. Fyrirvaralaust stakk konan barnið vinstra megin í brjóstið með þeim afleiðingum að það hlaut áverka á þind og lifur, en stungusárið náði inn undir neðri holæð neðan við hjarta barnsins. Konan var handtekin sama dag og árásin átti sér stað og játaði hún á sig verknaðinn. Hún hefur sætt geðrannsókn eftir handtökuna.



Myndir: Frá vettvangi glæpsins við Suðurgötu í Reykjanesbæ. Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson