Áhrifa nýrrar aðferðafræði ekki farið að gæta
PISA-rannsóknir eru gerðar á þriggja ára fresti og eru annar mælikvarði mælikvarði á námsárangur en samræmd próf sem tekin eru í 4., 7. og 10. bekk. PISA-rannsóknin sem birt var í vikunni tekur til allra sveitarfélaganna á svæðinu en skólarnir í Grindavík og Vogum heyra ekki undir fræðsluskrifstofuna í Reykjanesbæ. Þar kemur fram að Suðurnes standi áberandi verst að vígi allra landshluta hvað varðar læsi og lesskilning grunnskólabarna.
„Þessi nemendahópur sem kemur svona illa út, tók PISA í mars 2012 og samræmd próf haustið 2011. Áhrifa nýrrar aðferðafræði í Reykjanesbæ, Sandgerði og Garði er því ekki farið að gæta nema í mjög takmörkuðum mæli. Ein túlkun á þessum niðurstöðum PISA er að þetta er sá núllpunktur sem við gengum út frá þegar við bjuggum til sameiginlega framtíðarsýn. Ástandið var afar slæmt, við urðum að breyta. Sameiginleg framtíðarsýn okkar varð ekki til út í bláinn, hún er viðbragð við ástandi sem var algerlega óviðunandi og það endurspegla niðurstöður PISA mjög vel,“ segir Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri í viðtali við Víkurfréttir í dag.
Nánar er fjallað um rannsóknina í Víkurfréttum sem koma út í dag og verða m.a. aðgengilegar hér á forsíðu vf.is.