Áhrif úrskurðar umhverfisráðherra óljós
Ekki liggur ljós fyrir hvaða áhrif úrskurður umhverfisráðherra um Suðvesturlínur mun hafa á framkvæmdir á Suðurnesjum. Sumir óttast að hann muni tefja eða jafnvel koma í veg fyrir þau verkefni sem eiga að fá orku um línurnar. Aðrir telja að um formsatirði sé að ræða. Þingmenn Suðurkjördæmis munu hittast á fundi um málið í hádeginu og þá kemur í ljós hvort staðan verður eitthvað skýrari.
Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri viðskipta- og þróunarsviðs Norðuráls, sagði í samtali við MBL í gær þar á bæ skildu menn ekki úrskurð umhverfisráðherra og ætli að leita nánari skýringa. Hann segir ekki enn vera ljóst hvaða áhrif úrskurðurinn muni hafa á framkvæmdir við álverið í Helguvík. Úrskurðurinn sé þvert á þau fyrirheit sem Alþingi og ríkisstjórn hafi gefið fyrirtækinu.
Náttúruverndarsamtök Íslands fagna úrskurði umhverfisráðherra. Samtökin segja úrskurðinn sigur fyrir náttúruvernd í landinu, þótt þau hefðu helst kosið að umhverfisráðherra hefði úrskurðað þessar framkvæmdir í sameiginlegt mat, líkt og gert var með framkvæmdir vegna fyrirhugaðs álvers á Bakka.
Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir ríkisstjórnina ekki gera sér grein fyrir því hversu alvarlegt málið sé.
„Það var farið yfir mat á Suðvestur-línum fyrir þremur árum, árið 2006, og kom þá fram skýr niðurstaða stjórnvalda. Í kjölfar þessarar niðurstöðu stjórnvalda er búið að fara í 25 þúsund milljóna kr. fjárfestingar í orkumannvirkjum, bæði frá HS og OR, ásamt undirbúningi mannvikja og búnaðar Norðuráls í Helguvík. Nú er ríkistjórnin að kippa fótunum undan þessu með ákvörðun umhverfisráðherra. Frekari töf á þessum verkum getur þýtt að menn hverfa frá þeim,“ segir Árni Sigfússon m.a. í samtali við vf.is í gær.
Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segir í samtali við MBL í morgun að um formsatriði sé að ræða, miðað við þær upplýsingar sem hún hafi fengið um málið. Þau séu til komin vegna annmarka í gögnum og bakgrunni málsins frá Skipulagsstofnun og þetta eigi ekki að hafa áhrif á stöðuleikasáttmálann né neitt annað.
Eins og við var að búast er þessi úrskurður umhverfisráðherra afar umdeildur, sem sjá mátti í netheimum í gær þar sem fólk lýsti skoðunum sínum á bloggsíðum og á Facebook.
Úrskurðinn í heild sinni er hægt að nálgast á heimasíðu Umhverfisráðuneytisins hér.
---
VFmynd/Þorgils - Fyrstu skóflustungur að álverinu í Helguvík voru teknar í byrjun júní 2008. Síðan þá hafa framkvæmdaaðilar þurft að komast yfir marga þröskulda.