Áhrif flóttafólks á bæjarbrag Reykjanesbæjar
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, mælti fyrir fjárheimildum Reykjanesbæjar, 2023, og þriggja ára áætlun fyrir árin 2024-2026 í fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi í vikunni. Erindið sem hann flutti á fundinum hefur hann birt á Facebook-síðu sinni.
Í erindi Kjartans fór hann yfir hin ýmsu mál sem hafa verið í umræðunni eins og uppbyggingu leik- og grunnskóla, loftslagsmál, menningarmál og nýja heilsugæslu og nýtt hjúkrunarheimili en þau uppbygging þeirra hefur dregist nokkuð. Kjartan kom meðal annars inn á innra skipulag Ráðhússins sem og stjórnsýslunnar og hvort núverandi skipurit styðji nægilega vel við stefnu Reykjanesbæjar, sem ber yfirskriftina „Í krafti fjölbreytileikans“. Þá nefndi hann einnig uppbyggingu íþróttamannvirkja á svæðinu og nefndi þar að fyrstu skrefin í þeim málum eru þegar hafin en gera megi ráð fyrir að næst verði lögð áhersla á aðstöðu knattspyrnudeildanna og fimleikadeildarinnar. Þess má geta að á fundi ungmennaráðs Reykjanesbæjar með bæjarstjórn lögðu ungmennin áherslu á bætingu á aðstöðu deildanna.
Kjartan fjallaði einnig um áhrif flóttafólks á bæjarbrag Reykjanesbæjar og að ætlun sé að halda sérstakan upplýsingafund um þann málaflokk á næstunni. „Reykjanesbær er eitt örfárra sveitarfélaga sem hefur í 18 ár, eða síðan árið 2004, tekið á móti umsækjendum um alþjóðlega vernd. Ætlunin er að halda sérstakan upplýsingafund fyrir íbúa um þennan málaflokk á næstu vikum en ljóst er að þetta mikilvæga samfélagsverkefni reynir verulega á allt kerfið og samfélagið í heild. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka öllu starfsfólki sem að þessu verkefni kemur víðsvegar í kerfinu fyrir þeirra mikla framlag og aðlögunarhæfni,“ segir Kjartan.
Þá nefnir hann einnig verkefni er viðkemur almenningssamgöngum en áætlað er að hefja verkefnið á komandi ári. „Verktakinn tekur annars vegar í notkun rafmagnsstrætóa og hins vegar mun minni bíla sem hægt verður að panta utan venjulegs aksturstíma strætós. Í tengslum við það er ætlunin að tengja Flugstöð Leifs Eiríkssonar við kerfið,“ segir Kjartan.
Fundinn í heild sinni má sjá hér:
https://www.youtube.com/watch?v=go0h7RBfK9c