ÁHERSLUBREYTINGAR Á VINNSLUNNI HJÁ HB
„Munum fjölga starfsfólki innan tíðar“, segja forsvarsmenn H.B. í SandgerðiMikill hiti hefur verið í fólki að undanförnu vegna uppsagna hjá H.B. í Sandgerði. Þau svör fengust hjá yfirmönnum H.B. að uppsagnirnar hefðu verið nauðsynlegar vegna áherslubreytinga í vinnslunni. Flestir, sem sagt var upp, hafa fengið vinnu hjá öðrum fyrirtækjum. Í dag fer eingöngu fram loðnuvinnsla í fyrirtækinu og óvíst hvort bolfiskvinnsla verði hafin að nýju. Á næstunnni stendur til að fjölga starfsfólki í fyrirtækinu.Þróunarvinnu brátt lokiðAðalsteinn Árnason, vinnslustjóri H.B. í Sandgerði, sagði að fyrirtækið hefði að undanförnu verið í samstarfi við ýmis fyrirtæki í sambandi við þróun á vinnslu og búnaði, fyrir loðnuvinnslu. „Við erum komnir í gang með þurrkunarferlið og bráðlega tökum við í notkun nýjar vélar sem flokka loðnuna eftir þyngd. Þegar þessari þróunarvinnu er lokið munum við fjölga fólki því við höfum alla burði til að vaxa og dafna. Við búumst jafnvel við að þurfa að flytja inn erlent vinnuafl, eins og önnur sjávarútvegsfyrirtæki hafa neyðst til að gera”, sagði Aðalsteinn. Hann vildi einnig taka það fram að H.B. hefði verið því fólki, sem sagt var upp, innan handar við að útvega því aðra vinnu. Í dag starfa á 50-60 manns hjá H.B. í Sandgerði.Vinnslan verður stöðugH.B. selur loðnuna eingöngu á Japansmarkað, en þar er hún talin vera herramannsmatur. Hráefnið kaupir fyrirtækið í Noregi, Kanada og á Íslandi. Agnar Breiðfjörð, verkstjóri H.B. í Sandgerði, sagði að fyrirtækið ætti alltaf árs birgðir af loðnu. „Við munum því vinna loðnuna fimm daga vikunnar allt árið um kring”, sagði Agnar. Arnar sagðist ekki vita hvort bolfiskvinnsla hæfist að nýju en ekki stæði til að selja tækjabúnaðinn.Áhyggjur vegna samdráttar hjá H.B. í SandgerðiÁ fundi bæjarráðs Sandgerðisbæjar í síðustu viku, voru miklar umræður um breytingar á rekstri H.B. í Sandgerði. Bæjarfulltrúar viðurkenna í bókun, sem lögð var fram á fundinum, að þær væntingar sem gerðar voru til hins nýja fyrirtækis hafi ekki gengið eftir og hafi ekki veriði í samræmi við upplýsingar frá stjórnendum fyrirtækisins.Tekjumissir hafnarinnarÍ bókun bæjarráðs kemur fram að bæjarstjórnir og hafnarstjórnir hafi hingað til reynt að láta framkvæmdir við höfnina vera í fyrsta sæti til að tryggja sem besta aðstöðu fyrir útgerðaraðila í bænum. Þegar Miðnes hf. og Haraldur Böðvarsson sameinuðust var mikill uppgangur og rekstur í Sandgerðishöfn. Nú er hins vegar tekjumissir hafnarinnar umtalsverður vegna þess að nær öllum afla er landað annars staðar og skip og kvóti hefur að mestu verið fluttur í annað byggðarlag.Atvinnuöryggi ógnaðBæjarráð lýsir einnig yfir áhyggjum sínum vegna atvinnumála í bæjarfélaginu. „Nú er svo komið að atvinnuöryggi fjölda starfsmanna sem þjónað hafa fyrirtækinu frá sameiningu um langt árabil, er ógnað en þetta gerist þrátt fyrir fögur fyrirheit um frekari uppbyggingu og rekstur á staðnum”, segir í bókun bæjarráðs.Fer fram á endurskoðun rekstraráætlunarBæjarráð hvetur stjórn H.B. til að koma saman og endurskoða rekstaráætlanir sínar í Sandgerði og óskar eftir viðræðum við stjórnendur fyrirtækisins varðandi eftirfarandi atriði:-Umtalsverðum tekjumissi Sandgerðishafnar.-Bolfiskvinnslu, sem hefur nánast verið lögð niður.-Vinnu iðnaðar-og tækjamanna,vélstjóra og verkafólks sem hefur dregist stórlega saman.„Stjórnendur Haraldar Böðvarssonar hf. fengu ofangreinda bókun í hendurnar strax eftir fundinn, sem haldinn var þriðjudaginn 12. október, en þeir hafa ekkert látið í sér heyra enn sem komið er”, sagði Óskar Gunnarsson forseti bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar. Sigurður Valur Ásbjarnarson, bæjarstjóri Sandgerðisbæjar, sagði að bókunin segði allt sem segja þyrfti og að bæjaryfirvöld vildu fara með gát í málið því að það væru miklir hagsmunir í húfi fyrir bæjarfélagið.