Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Þriðjudagur 16. janúar 2001 kl. 09:56

Ágreiningur um notkun Bláa lónsins

Bláa Lónið hf. hefur sent frá sér fréttatilkynningu vegna ágreinings sem ný er í gangi milli þeirra og veitingahússins Jennýar. Í yfirlýsingunni segir m.a. að Bláa Lónið hf. reki baðstaðinn við Bláa lónið þar sem einnig er veitinga-, veislu- og ráðstefnuþjónusta.
Í fréttatilkynningunni segir orðrétt: „Hitaveita Suðurnesja hefur frá árinu 1987 verið skráður eigandi vörumerkisins Bláa lónið og frá árinu 1993 haft einkarétt á notkun vörumerkisins sem
lúta að framleiðslu húðvara úr hráefnum Bláa lónsins.“
Frá árinu 1988 hafa nokkrir rekstraraðilar rekið baðhús og veitingaþjónustu við gamla baðlónið við orkuver Hitaveitu Suðurnesja með samningi við Hitaveituna. Bláa Lónið hf. tók við rekstrinum með þessum hætti árið 1994, allt þar til félagið flutti lónið og opnaði nýjan baðstað árið 1999.
Veitingahús hefur verið rekið í nágrenni hins gamla baðlóns og orkuvers Hitaveitunnar undanfarin tíu ár, þar af s.l. þrjú ár undir nafni veitingahússins Jennýar.
Í lok fréttatilkynningarinnar kemur fram að veitingahúsið Jenný hafi í heimildarleysi notað nafn Bláa lónsins við kynningu á rekstri sínum þrátt fyrir ítrekuð mótmæli af hálfu Bláa Lónsins hf. „Að gefnu tilefni telja Bláa Lónið hf. og Hitaveita Suðurnesja nauðsynlegt að þessar upplýsingar komi fram vegna misvísandi fréttaflutnings af þessum ágreiningi. Einnig harma fyrirtækin að til málaferla þurfi að koma til viðurkenningar á skráðum rétti þeirra á vörumerkinu Bláa lónið.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024