Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Agastefna skilar árangri
Laugardagur 10. nóvember 2012 kl. 07:40

Agastefna skilar árangri

Ritrýnd fræðigrein birtist nýverið í íslenska Sálfræðiritinu um innleiðingu PBS í Holtaskóla, Njarðvíkurskóla og Myllubakkaskóla. Höfundar greinarinnar eru DR Zuilma Gabriela Sigurðardóttir, Kolbrún Ingibjörg Jónsdóttir, Ragnheiður Sif Gunnarsdóttir, fulltrúi í fræðsluráði Reykjanesbæjar og Gylfi Jón Gylfason, fræðslustjóri Reykjanesbæjar.

Í greininni kemur fram að metin voru áhrif innleiðingar á heildstæðum stuðningi við jákvæða hegðun, PBS, með beinu áhorfi í þremur grunnskólum.  Heildstætt PBS er hegðunarstjórnunarkerfi fyrir grunn- og leikskóla sem byggir á lögmálum náms.  Sýnt hefur verið fram á með fjölda rannsókna að aðferðir sem byggja á þeim lögmálum eru áhrifaríkar og bæta hegðun  nemenda.

Fyrri rannsóknir á árangri heildstæðs PBS hafa skoðað vísanir til skólastjóra og notað staðlaða sjálfsmatslista sem lagðir hafa verið fyrir starfsfólk og nemendur skóla.  Í þessari langtímarannsókn var árangurinn metinn með beinum áhorfsmælingum á öllum svæðum skólanna.  Gögnum hefur verið safnað hverja önn frá vori 2008.  Margfalt grunnskeiðssnið (multiple baseline design) yfir skóla var notað til að meta árangur kerfisins.

Í greininni er sagt frá aðalniðurstöðum fyrstu fjögurra ára rannsóknarinnar en þær benda til þess að áhrifa PBS sé strax farið að gæta í samskiptum starfsfólks við nemendur en hlutfall jákvæðrar athygli við æskilegri hegðun nemenda hefur aukist töluvert á öllum aldursstigum og stafsfólk hunsar mun sjaldnar hegðun nemenda.  Starfsfólk bregst þó sjaldan við óæskilegri hegðun nemenda og töluverður breytileiki er í gögnum sem bendir til þess að ekki fari allt starfsfólk skólanna jafnmikið eftir kerfinu. Greint er frá þessu á vef Reykjanesbæjar.

Heimild: Sálfræðiritið. Tímarit sálfræðingafélags Íslands, 17. árg. 2012

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024