Ágætur árangur af fundi um HSS
„Vegna ágreinings um fjárveitingar til HSS var boðað til fundar með stjórnarþingmönnum Suðurkjördæmis, forstöðumanni Heilbrigðisstofnunarinnar, heilbrigðisráðherra og embættismönnum ráðuneytisins. Farið var ítarlega yfir forsendur reiknilíkans, stöðu stofnunarinnar og þjónustustig. Skýringar fengust á helstu forsendum reiknilíkansins og misskilningi eytt. Fundurinn skilaði þeim árangri að ráðuneytið samþykkti að greina kostnað vegna fjölgunar á Ásbrú, fyrrum varnarsvæðis. Þar búa um 1.500 manns sem flestir eru námsmenn með ungar fjölskyldur og margir með lögheimili í öðrum sveitarfélögum og teljast því ekki með þegar íbúar á Suðurnesjum eru taldir. Einnig mun ráðuneytið meta þann kostnað sem í því felst að HSS þarf að viðhalda ákveðnu viðbúnaðarstigi vegna nálægðar við alþjóðaflugvöll og greina kostnað vegna þjónustu við farþega. Þá var lögð á það áhersla að fá útreikninga leiðrétta vegna sjúkrarúma fyrir aldraða sem vanmetin eru í reiknilíkani. Þjónusta HSS við sykursjúka hefur verið stórbætt á undanförnum árum og njóta um 500 manns þeirrar þjónustu. Beðið verður með að segja þeim starfsmönnum upp sem sinna þeirri þjónustu á meðan kannaðar eru leiðir til að viðhalda henni. Það sama á við um þá sálfélagslegu þjónustu sem HSS veitir,“ segir Oddný G. Harðardóttir þingmaður í samtali við Víkurfréttir um málefni Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja eftir fund um málefni stofnunarinnar í gær.
Oddný bendir á að rekstrarvandi Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafi verið til umræðu undanfarin ár og Suðurnesjamenn hafi haft grun um að þær forsendur sem settar eru inn í reiknilíkan það sem ákvarðar fjárveitingar séu ekki allar réttar. Hún rifjar upp að sumarið 2008 hafi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum beitt sér fyrir leiðréttingu á fjölda íbúa í líkaninu og fengið þá viðurkennt að fjöldinn hafi ekki verið uppfærður í takt við raunveruleikann. Sú leiðrétting gaf 60 milljón króna viðbót til rekstrar og í fjárlögum 2010 var til viðbótar veittar 15 milljónir til heilsugæslunnar.
Til að standast fjárlög 2010 þurfa hagræðingar- og sparnaðaraðgerir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að skila 5,1% eða um 86 milljónum króna og því til viðbótar um 27 milljónum króna sem stofnunin fór fram úr fjárheimildum ársins 2009. Því hefur verið haldið fram að vitlaust sé gefið og að HSS hafi um árabil liðið fyrir lágar fjárveitingar. Því komi krafa um niðurskurð nú verr niður á þjónustu við íbúa á Suðurnesjum en aðra landsmenn.
„Það hefur verið vitað síðan sumarið 2009 að krafa yrði gerð til heilbrigðisþjónustu um 5% niðurskurð á árinu 2010 og í leiðarljósi heilbrigðisráðuneytisins er lögð áhersla á að verja störf og grunnþjónustu eins og kostur er í því ferli. Við Suðurnesjamenn veigrum okkur ekki við að hagræða og spara eins og aðrir landsmenn þegar kreppir að, en við gerum jafnframt kröfu til þess að tekið sé tillit til starfsaðstæðna HSS og að fjárveitingar séu í samræmi við þær líkt og á öðrum landssvæðum þannig að tryggt sé að réttlætis sé sætt.“ Segir Oddný G. Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.