Ágæt veiði hjá línubátum
Línubátarnir í Grindavík hafa verið að fiska ágætlega í september. Þorbjarnarskipin byrjuðu mánuðinn vel og er Valdimar GK aflahæstur línubáta yfir landið með 151 tonn eftir tvo róðra. Þar af 92,5 tonn í öðrum róðrinum.
Tómas Þorvaldsson GK hefur landað 107 tonnum í jafnmörgum róðrum, samkvæmt aflalista Gísla Reynissonar á www.aflafrettir.com. Tómas Þorvaldsson er í þriðja sæti listans. Næst á eftir kemur Ágúst GK, einnig gerður út af Þorbirni. Hann hefur landað rétt rúmum 107 tonnum.
Jóhanna Gísladóttir ÍS sem gerð er út af Vísi í Grindavík, landaði 90 tonnum en samkvæmt Aflafréttum hafa bátar Vísis landað í gáma.
Ekki fer miklum sögum af löndunum smábáta í Suðurnesjahöfnum en þeir eru margir hverjir að róa fyrir austan og norðan land.