Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Ágæt aflabrögð í Grindavík
Sunnudagur 25. febrúar 2007 kl. 11:46

Ágæt aflabrögð í Grindavík

Það var gott hljóðið í sjómönnum við höfnina í Grindavík síðdegis í gær þegar verið var að landa aflanum eftir róður dagsins. Aflabrögð voru með ágætum loks þegar gaf á sjó en brælur hafa hamlað veiðum smábátanna undanfarið og hafa margir þeirra róið frá Sandgerði í skjóli fyrir austanáttinni.
Í vikunni hefur verið landað úr tveimur stórum línubátum á dag og hefur afli þeirra verið frá 60-80 tonn í veiðiferð. Afli netabáta hefur einnig verið að glæðast.

Það sem af er febrúarmánuði hefur 1.386 tonnum af þorski verið landað í Grindavík og 1.156 tonnum í Sandgerði, skv. bráðabirgðatölum frá Fiskistofu.
Ýsuaflinn er kominn í 669 tonn í Grindavík og 463 tonn í Sandgerði.

Efri mynd: Menn voru brosandi á bryggjunni í Grindavík í gær enda þokkalega sáttir við aflabrögð dagsins.

Neðri mynd: Full fiskikör á bryggjunni og líf og fjör við höfnina. Svoleiðis á það að vera.

VF-myndir: Ellert Grétarsson.



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024