Aftur sjúkrabílalaust í gær
Sú staða kom eftur upp á Suðurnesjum í gær að enginn tiltækur sjúkrabíll var í Reykjanesbæ. Allir bílarnir voru uppteknir við flutninga á sjúklingum á sjúkrahús í Reykjavík. Þetta gerðist skömmu eftir hádegi í gær.
Þegar þessi staða kemur upp er sjúkrabifreið frá Grindavík sett í viðbragðsstöðu og er sjúkrabíllinn frá Grindavík sendur að gatnamótum Reykjanesbrautar og Grindavíkurvegar til að vera miðsvæðis ef kalla þarf hann til.
Lítið má útaf bregða þegar þessi staða kemur upp á Suðurnesjum. Brunavarnir Suðurnesja höfðu áður yfir að ráða fjórum sjúkrabílum en þeir eru í dag þrír. Sama ástand varð uppi fyrir rúmri viku en þeir sem til þekkja segja stöðuna vera ófremdarástand sem Suðurnesjamenn geti ekki búið við.