Aftur fær Thorsil greiðslufrest
Greiða gatnagerðargjöld í mars 2016
Thorsil ehf. hefur fengið greiðslufrest vegna gatnagerðargjalda sem fyrirtækið átti að greiða Reykjanesbæ í dag, 15. desember. Fresturinn færist til 15. mars 2016.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að Reykjaneshöfn og Thorsil ehf., sem fyrirhugar að byggja kísilverksmiðju í Helguvík, hafi gert með sér samkomulag vegna tafa á framgangi lóðar- og hafnarsamnings frá 11. apríl 2014.
Samkomulagið gerir ráð fyrir að fyrsti gjalddagi gatnagerðargjalda færist aftur til 15. mars 2016, gegn því að búið verði að aflétta fyrirvörum fyrir þann tíma.