Aftur engin kvölddagskrá á 17. júní
-Dagurinn verði fjölskyldufólki til ánægju
Eins og síðastliðin tvö ár er gert ráð fyrir því að kvölddagskrá verði sleppt á þjóðhátíðardaginn þann 17. júni. Menningarráð Reykjanesbæjar lagði það til á síðsata fundi ráðsins að hátíðarhöld verði með sama hætti og síðustu tvö árin, þ.e. hefðbundin dagskrá að degi til en kvölddagskrá sleppt.
Þótti þetta gefa góða raun og stefnt er að því dagurinn verði fjölskyldufólki í bæjarfélaginu til ánægju. Að öðru leyti verði dagskrá með svipuðu sniði og venja er. Leikfélag Keflavíkur mun sjá um dagskrá sem fram fer í skrúðgarðinum. Nöfn fjallkonu, fánahyllis og ræðumanns verða gefin upp síðar eins og venja er.