Afslættir og frestanir hjá Suðurnesjabæ
Vegna áhrifa heimsfaraldurs af völdum COVID-19 hefur margvísleg þjónusta Suðurnesjabæjar tekið breytingum frá því sem verið hefur. Um er að ræða afslætti og frestun á ýmsum þáttum í þjónustu og gjöldum. Aðgerðastjórn hefur unnið eftir og tekið ákvarðanir á grundvelli leiðbeininga og tilmæla frá Embætti landlæknis, sóttvarnalækni og Almannavörnum hverju sinni.
Þá hefur samkomubann og afleiðingar heimsfaraldurs haft mikil áhrif á mörg atvinnufyrirtæki, sérstaklega í ferðaþjónustu, þar sem tekjur fyrirtækjanna hafa nánast þurrkast upp. Af þessu leiðir að sveitarfélagið mæti annars vegar þjónustuþegum í skólum og barnagæslu og hins vegar atvinnufyrirtækjum sem lenda í greiðsluvanda. Vegna þessa hefur bæjarráð Suðurnesjabæjar samþykkt eftirfarandi aðgerðir:
-
Þjónustugjöld og skólamáltíðir.
Eftir að samkomubann tók gildi frá og með 16. mars 2020 hefur starfsemi leikskóla, grunnskóla, skólasels og dagforeldra verið skert. Aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar hefur gefið út breytingar á innheimtu þjónustugjalda vegna þess og gildir það meðan samkomubann er í gildi og starfsemin er skert.
Leikskólagjöld og skólasel:
Afslættir af gjöldum verði með eftirfarandi hætti frá og með 16. mars 2020.:
- Foreldrar sem hafa tekið ákvörðun um að nýta ekki dvalartíma sinn meðan samgöngubann varir fá 100% afslátt af gjöldum.
- Foreldrar sem nýta þjónustu greiða einungis fyrir þá þjónustu sem nýtt er.
- Endurútreikningur gjalda mun taka tíma en áætlað er að hægt verði að leiðrétta í apríl.
Dagforeldrar
- Greiðslur til dagforeldra verði óskertar ef dregið verður úr vistun barna.
Skólamáltíðir
- Allir nemendur í grunnskólum Suðurnesjabæjar fái einfalda máltíð þá daga sem nemendur eru í skóla meðan skólahald stendur á tímum samkomubanns og skertra skóladaga sökum þess.
- Engir reikningar vegna skólamáltíða verða sendir út fyrir apríl mánuð og meðan takmarkað skólahald stendur yfir.
- Greiðslur foreldra og forráðamanna vegna áskrifta að skólamat fyrir mars verða endurreiknaðar og miðast við 16. mars 2020. Nánari útfærsla á endurútreikningum verður kynnt nánar og þegar hún liggur fyrir.
- Starfsmenn Suðurnesjabæjar munu sjá um endurgreiðslu og því þurfa foreldra eða forráðamenn ekki að hafa samband við Skólamat til að segja upp áskriftum.
Íþróttamiðstöðvar
Þar sem loka hefur þurft aðgangi að sundlaugum og íþróttamiðstöðvum Suðurnesjabæjar vegna COVID-19 verða tímabundin aðgangskort framlengd um þann tíma sem lokunin stendur yfir.
-
Fasteignagjöld lögaðila.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur hvatt sveitarfélög til þess að koma til móts við atvinnufyrirtæki sem lenda í rekstrarerfiðleikum vegna afleiðinga af Covid-19 faraldrinum, varðandi m.a. innheimtu fasteignagjalda.
Í 4.gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er kveðið á um gjalddaga og eindaga fasteignagjalda sveitarfélaga. Sveitarfélögum ber að ákveða gjalddaga fasteignagjalda í upphafi hvers árs og er eindagi samkvæmt lögunum 30 dögum eftir gjalddaga.
Varðandi innheimtu fasteignagjalda gildir eftirfarandi:
Innheimta fasteignagjalda lögaðila:
Lögaðilar sem þess óska og eiga í rekstrarerfiðleikum vegna tekjuskerðingar af völdum Covid-19 faraldurs, geta fengið frest á greiðslu fasteignagjalda án kostnaðar. Um er að ræða fasteignagjöld á gjalddaga í mars og apríl 2020 og mögulegur greiðslufrestur er til 30. júní 2020.
Framangreindar ráðstafanir koma til endurskoðunar ef þörf krefur og eftir tilmælum almannavarna hverju sinni.
Meðal margvíslegra breytinga á þjónustu í bæjarfélaginu er hjá Bókasafni Sandgerðis þar sem bækurnar eru afhentar út um lúgu.