Afrekskonur á Ólympíuleikana

Suðurnesjakonurnar og sundgarparnir Eydís Konráðsdóttir og Íris Edda Heimisdóttir verða fulltrúar Íslands á Ólympíuleikunum sem fara að þessu sinni fram í Sydney í Ástralíu. Leikarnir hefjast 15. september en þrátt fyrir að þeir hefjist ekki fyrr en eftir fjórar vikur, þá hélt Eydís til Canberra í Ástralíu sl. miðvikudag. Íris Edda fylgir hins vegar landsliðshópnum út nk. föstudag. Silja Dögg Gunnarsdóttir mælti sér mót við ólympíufarana sl. þriðjudagskvöld á veitingahúsinu Jenný við Bláa lónið. Á uppdekkuðu borðinu biðu glæsilegar gjafapakkningar með Bláa lóns snyrtivörum, sem koma sér eflaust vel eftir erfiða spretti í Ástralíu. Kærasti í Ástralíu Hvers vegna ferð þú svona snemma út Eydís? „Ég er nú aðallega að fara til að eyða smá tíma með kærastanum mínum, sem keppir líka á leikunum. Við höfum bæði verið mjög upptekin við æfingar að undanförnu og þegar leikarnir hefjast eigum við örugglega ekki eftir að sjást mikið“, segir Eydís en fyrir þá sem ekki vita þá heitir sá heppni Matthew Dunn og er einn af fremstu sundmönnum Ástrala. Eydís segir fjarlægðina og þá staðreynd að þau séu bæði mjög upptekin vegna sundsins, ekki hafa slæm áhrif á sambandið, síður en svo. Gagnkvæmur skilningur „Ég hef dvalið í Canberra við æfingar sl. eitt og hálft ár, sem hefur verið alveg frábært þar sem stuðningur við íþróttafólk er mjög góður og þjálfun mjög fagmannleg. Íþróttiðkunin tekur mikinn tíma og maður þarf að fórna öllu til að ná langt. Það ríkir því gagnkvæmur skilningur á milli mín og Matthew og við veitum hvort öðru góðan stuðning“, segir Eydís. Þrátt fyrir að Eydís fari á undan hópnum til Ástralíu þá er hún nú þekkt fyrir annað en að slá slöku við. „Ég verð að æfa fram að leikunum. Fyrst í Canberra og síðan fer ég með sundlandsliðinu til Wollongong, þar sem við verðum með æfingaaðstöðu ásamt Finnum og Hvít-Rússum.“ Eins og fyrr segir þá er setningarathöfn ólympíuleikanna 15. september en sundkeppnin fer fram dagana 16.-23. september. Eydís keppir í 100 m flugsundi 16. september og þá er eins gott fyrir alla Suðurnesjamenn að setjast fyrir framan sjónvarpið og hvetja stúlkuna. Æfa grimmt fyrir leikana Íris Edda er nýkomin frá Evrópumeistaramóti í Frakklandi þar sem henni gekk ágætlega að eigin sögn. Hún hvíldi vel fyrir það mót en er nú byrjuð að æfa af kappi fyrir leikana undir styrkri stjórn landsliðsþjálfaranna Brian Daniel Marshall og Sigurlínar Þorbergsdóttur. „Landsliðshópurinn hefur að mestu leyti æft í Kópavogi, þar sem aðstaðan er mjög góð. Við höfum líka verið í æfingabúðum víða um land að undanförnu. Reyndar kemst ég ekki á allar æfingar en ég fæ þá fyrirmæli frá þjálfurunum mínum og æfi sjálf í sundlauginni í Keflavík“, segir Íris og Eydís bætir við að undanfarnar sex vikur hafi eiginlega verið einar allsherjar æfingabúðir. Lundinn er góður í sundi Að þessum orðum slepptum kemur þjónninn að borðinu til okkar og færir okkur girnilegan forrétt, reyktan lunda á vodkasalati með mangósósu. Hljómar svolítið undarlega en bragðið svíkur engan. Stúlkurnar líta kankvíslega hvor á aðra þegar minnst er á lunda. „Lundinn er táknið okkar. Við ákváðum að velja okkur einkennisdýr og völdum lundann þar sem okkur þykir hann vera táknrænn fyrir Ísland, en hann er einnig fjörugur, litsterkur, trúfastur og síðast en ekki síst góður í sundi og flugi“, útskýra þær hlægjandi. Spennandi að fá að keppa á ÓL Ólympíuleikarnir í Sidney er ekki þeir fyrstu sem Eydís tekur þátt í en hún keppti einnig í Seattle 1996. Býstu við að upplifunin verði önnur nú en fyrir fjórum árum? „Ég hlakka mikið til að fara nú sem áður og ég á örugglega eftir að upplifa þá á annan hátt. Vonandi er ég orðin örlítið reyndari og hugsanlega meira niður á jörðinni“, segir Eydís brosandi. Hvað með þig Íris, hvernig leggst þetta í þig? „Ég er að fara í fyrsta skipti og hlakka mikið til. Ég hef heyrt margar sögur af því hvernig er að keppa á Ólympíuleikum en það er örugglega allt öðruvísi að upplifa það sjálfur. Ég verð að viðurkenna að ég er svolítið kvíðin en ég er kannski ekki búin að gera mér fyllilega grein fyrir að ég sé að fara. Mér þykir tilhugsunin óraunveruleg. Ætli ég átti mig ekki þegar ég er komin ofaní laugina“, segir Íris og lítur girndaraugum á svínakjötssneiðarnar sem þjónninn ber á borð fyrir hana. Eydís fær sér skötusel sem lítur ekki síður vel út. Þegar þær eru búnar að bragða á veitingunum getur viðtalið haldið áfram. Gerum okkar besta Þær eru sammála um að þær fari með það markmið í huga að gera sitt besta en þær vita ekki enn hverjum þær mæta í lauginni. „Keppnislistinn verður ekki birtur fyrr en rétt fyrir leikana þannig að við höfum ekki hugmynd um hvar við stöndum“, segja þær en besti tími Eydísar í 100 m flugsundi er 1:02:93. Íris Edda keppir í 100 m bringu en þar á hún tímann 1:13:42 og í 200 m bringu þar sem hún á tímann 2:35:80. Ómetanlegur stuðningur fjölskyldunnar Spjallið heldur áfram og á meðan fáum við spennandi eftirrétti á borðið til okkar, annars vegar ístvennu og hins vegar sítrónuböku með súkkulaðimús. Við gæðum okkur á matnum en áður en myndatakan hefst utandyra vilja Íris Edda og Eydís þakka fjölskyldum sínum fyrir allan þann stuðning sem þær hafa fengið frá þeim í gegnum árin. „Stuðningur þeirra hefur verið ómetanlegur. Við værum ekki að fara á Ólympíuleikana ef þeirra hefði ekki notið við, það er öruggt mál.“